Rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum á meintu skjalafalsi bakvarðarins Önnu Auroru Waage er á lokametrunum. Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri á Vestfjörðum.
Greint var frá því í Mannlífi í dag að málið hefði verið sent saksóknara.
Karl Ingi segir hins vegar að rannsóknin sé á lokametrunum og því ekki búið að senda það áfram.
Anna Aurora starfaði sem bakvörður í heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í byrjun apríl, þar sem hún var handtekin, sökuð um að hafa framvísað fölsuðum gögnum og misfarið með lyf. Hún segist vera alsaklaus og hún hafi ekkert að fela. Hún segist jafnframt hafa verið meðhöndluð eins og stórglæpamaður.