Á borði hafnarstjóra og hafnarstjórnar í Hafnarfirði hefur undanfarið legið beiðni frá Vélsmiðju Orms og Víglundar um að setja upp níu metra hlið við aðkomusvæði að flotkví félagsins, sem fyrirhugað er að girða af.
Nágrannafyrirtækið Trefjar telur hins vegar að hliðið þurfi að vera tíu metrar að breidd til að bátalyfta eða bátavagn fyrirtækisins geti komist með báta eftir Óseyrarbraut frá verksmiðjuhúsi gegnum hliðið og til sjósetningar.
Í bréfi lögmanns vélsmiðjunnar til Hafnarfjarðarhafnar um miðjan apríl kemur m.a. fram að Trefjar hafi ekki veitt samþykki fyrir 2,5 metra hárri girðingu á mörkum lóða fyrirtækjanna. Slíkt samþykki væri háð því að hlið við enda Óseyrarbrautar yrði um tíu metrar á breidd svo bátalyftan kæmist þar um. Byggingarfulltrúi hafi synjað um leyfi fyrir girðingunni þar sem samþykki Trefja liggi ekki fyrir.
Í bréfinu er bent á ýmsar takmarkanir samkvæmt lögum og reglugerðum á ferðum svo stórs og þungs tækis, eins og bátalyftunnar, utan vinnusvæðis. Þar segir að furðu sæti að starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar gangi erinda Trefja til þess að gera mögulegt að bátalyftan fái ekið ólöglega eftir Óseyrarbraut eins og hvert annað ökutæki. Í bréfinu óskar lögmaður vélsmiðjunnar eftir formlegri staðfestingu frá hafnarstjóra um heimild fyrirtækisins til að loka Óseyrarbraut við hafnarsvæðið með níu metra hliði, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.