Aron Þórður Albertsson
„Við höfum orðið vör við umtalsverða fjölgun umsókna, en þó ekki eins mikla og við mátti búast sé horft til talna frá Vinnumálastofnun. Það er fjöldi á hlutabótaleiðinni auk þess sem margir starfa nú á uppsagnarfresti sem ekki klárast fyrr en í haust.“
Þetta segir Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri ráðninga- og ráðgjafarfyrirtækisins Hagvangs um ástand sem skapast hefur á vinnumarkaði sökum áhrifa og útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi.
Nú þiggja nær 60 þúsund manns atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun, í formi hlutabóta eða fullra bóta. Viðlíka ástand hefur aldrei áður raungerst á íslenskum vinnumarkaði, en vonir eru þó bundnar við að hápunkti hafi verið náð. Að sögn Katrínar hefur ástandið orðið til þess að einstaklingar í atvinnuleit eru nú opnari fyrir fleiri störfum.
„Stærsta breytingin er kannski sú að fólk er duglegt að sækja um og þegar störf eru auglýst berst alveg ótrúlegur fjöldi umsókna. Fólk er þess utan talsvert opnara fyrir því að skoða störf á nýjum vettvangi. Einstaklingar hafa kannski verið að leita sér að ákveðnu starfi en eru nú að átta sig á því að þeir geta ekki endilega leyft sér að einskorða leitina við ákveðið svið,“ segir Katrín.