Árleg sýning íslenskra blaðaljósmyndara opnar á mánudag í Ljósmyndasafni Reykjavíkur en í dag voru ljósmyndurum veitt verðlaun fyrir bestu myndir ársins 2019. Veitt voru verðlaun í 7 flokkum auk bestu myndar ársins.
Mynd ársins 2019 tók Golli / Kjartan Þorbjörnsson, ljósmyndari Iceland Review og er það mynd frá vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul. Í umsögn dómnefndar segir að um sé að ræða áhrifaríka og táknræna mynd fyrir loftslagsbreytingar af manna völdum. Myndin sýni hversu smár maðurinn er í samanburði við náttúruna og jökulinn frá áhugaverðu sjónarhorni.
Aðrir ljósmyndarar sem voru verðlaunaðir voru Sigtryggur Ari Jóhannsson, ljósmyndari Fréttablaðsins, sem átti bestu mynd í fréttaflokki, Golli / Kjartan Þorbjörnsson sem átti myndröð ársins, Heiða Helgadóttir, ljósmyndari Stundarinnar, sem átti portrett ársins og daglegt líf mynd ársins, Kristinn Magnússon, ljósmyndari Morgunblaðsins, sem átti bestu íþróttamynd ársins, Eggert Jóhannesson, ljósmyndari Morgunblaðsins, sem tók bestu umhverfismynd ársins og Aldís Pálsdóttir sem tók tímaritamynd ársins 2019.
Sjö dómarar völdu 96 myndir á sýninguna í ár úr 826 innsendum myndum íslenskra blaðaljósmyndara. Þeir völdu þar að auki sigurmynd í hverjum flokki og mynd ársins. Dómnefndina í ár skipuðu Arnaldur Halldórsson, Bragi Þór Jósefsson, Brynjar Gunnarsson, Kristinn Ingvarsson, Rut Sigurðardóttir, Sigríður Kristín Birnudóttir og Catalina Martin-Chico, sem jafnframt var formaður dómnefndar.
Sýningin verður opin í Ljósmyndasafni Reykjavíkur frá 11. Maí til 1. júní. Fjöldi gesta í sýningarsal hverju sinni takmarkast við 40 manns og virða þarf tveggja metra regluna.