Næsta bylgja verður viðráðanleg

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítalanum, segir að Ísland sé …
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítalanum, segir að Ísland sé tilbúið að takast á við næstu bylgju faraldursins, sem hann segir að hljóti að koma ef fólk fer að haga sér eins og fyrir faraldur. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

„Hvort viltu hafa samfélag sem er alveg hraust af veirusýkingu en er algerlega í efnahagslegri rúst og getur þess vegna ekki staðið undir heilbrigðiskerfi, menntun eða vísindum vegna efnahagsástandsins, eða viltu hagnýta þá þekkingu og lærdóm sem hefur safnast í ferlinu hingað til og nýta hann til að glíma við þetta áfram og koma hjólum atvinnulífsins um leið aftur af stað?“ spyr Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítalanum, í samtali við mbl.is.

Már segir ástæðu til þess að fara að líta „pragmatískt“ á ástandið hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins. „Þetta er bara ákveðinn raunveruleiki: Okkur hefur tekist með aðgerðunum að halda okkur niðri í mjög lágri dánartíðni og sú er að nálgast tíðnina sem við höfum haft í venjulegri inflúensu,“ segir Már. Tíu hafa látist vegna Covid-19 á Íslandi en að jafnaði látast fleiri en það ár hvert á Íslandi úr öðrum veirusýkingum, eins og inflúensu.

Að mati Más hefur nú safnast næg þekking á Íslandi til þess að hægt verði að þola aðra bylgju af Covid-19 smitum, komi hún til. Kerfin hafa sýnt að þau standist það versta. Þess vegna sé hægt að leyfa smiti að vera áfram í samfélaginu með það fyrir augum að koma upp vörnum við faraldrinum til frambúðar.

„Þá verður önnur bylgja“

Mikið er rætt um „aðra bylgju“ faraldursins í þeim löndum þar sem tekist hefur að fletja fyrstu kúrvuna, eins og hér á landi. Í slíkri annarri bylgju myndi þá kúrvan komast aftur á skrið og hækka á nýjan leik.

„Ef maður ætlar að taka alveg ígrundaða afstöðu til annarrar bylgju veirunnar,“ segir Már, „þarf maður að vita meira en við vitum núna.“ Þar segir hann mestu máli skipta að vita hve útbreitt mótefni er í samfélaginu. 5% gætu verið ónæm en talan gæti allt eins verið 1%, 10% eða 20%.

„Að því sögðu er engin spurning að ef við förum aftur að hegða okkur eins og fyrir faraldurinn, þá verður önnur bylgja, ef tekið er mið af því hve langt við eigum enn í land í hjarðónæmi,“ segir Már.

En það er grundvallarmunur á fyrstu bylgju og annarri

„Munurinn er á fyrstu og annarri bylgjunni er hins vegar sá að við höfum farið í gegnum lærdóminn núna. Við þekkjum nú öll mikilvægi handþvottar, varnarbúnaðar, hvað nánd hefur í för með sér og hópsamkomur og við eigum nú heilbrigðiskerfi sem er í stakk búið að bregðast mjög hratt ef það koma upp hópsýkingar, með einangrun og sóttkví,“ segir Már.

„Ég ætla því ekki að storka örlögunum en ég held samt að í krafti þekkingar okkar nú sem þjóðfélags og í krafti þess skipulags sem við höfum komið okkur upp, að önnur bylgja faraldursins verði minni og viðráðanlegri en lágt ónæmishlutfall í samfélaginu gefur tilefni til að ætla,“ segir Már.

Eftir því sem samkomutakmörkunum er aflétt smátt og smátt, fer …
Eftir því sem samkomutakmörkunum er aflétt smátt og smátt, fer lífið að færast í eðlilegt horf. Ef það leiðir á endanum til annarrar bylgju faraldursins, segir Már að kerfið sé tilbúið að takast á við hana. Kristinn Magnússon

Hægt að leggja af stað

Það er löng leið framundan að margumræddu hjarðónæmi en samkvæmt ofangreindu er það mat Más að nú sé óhætt að leggja af stað eftir þeirri leið. Ef maður gefur sér að 5% Íslendinga hafi þegar myndað mótefni við veiruna, og það eru engin gögn sem styðja þá tölu heldur aðeins getgátur, þá þurfa enn fimmtánfalt fleiri að smitast svo að hjarðónæmi sé náð.

„Með þessum lærdómi sem við höfum fengið tel ég að við getum haldið þessu niðri á einhverjum skynsamlegum nótum. Við erum alveg í stakk búin til að takast á við að hér sé áfram smit,“ segir Már. Á sama tíma séu komin lyf til landsins sem geta hjálpað til. Biðin eftir bólusetningu verður að líkindum löng.

Áríðandi þáttur í efnahagslegri viðspyrnu hér á landi verður að hleypa lífi í ferðaþjónustu á nýjan leik og Már telur ekki fjarstæðu að gera það, ásamt því sem smiti er „leyft“ að dreifast um samfélagið smátt og smátt. „Í fyrsta lagi kom veiran ekki hingað til lands með ferðamönnum, þannig að það er ekki sýnt að hún muni gera það næst, en í öðru lagi tel ég að fólk muni almennt ekki ferðast lasið. Það gerði það ekki fyrir og gerir það enn síður nú. Því verður líklega tiltölulega lítil áhætta á að ferðamenn breiði út miklu smiti,“ segir Már.

Skipulag skipti sköpum

Dánartíðni af völdum Covid-19 hér á landi er 10 af 1800 greindum, um 0,55% hlutfall. Það hlutfall er síðan í raun enn lægra, því ljóst er að fjöldi hefur smitast án þess að hafa greinst og sumir eru alveg einkennalausir.

Már segir að þessi lágu hlutföll helgist fyrst og fremst af skipulaginu. „Allir sem greindust fengu læknisþjónustu í gegnum fjarskipti í ró og næði heima hjá sér og um leið og einhverjum fór að versna gat verið hugsað um hann og tekið á móti honum niðri á sjúkrahúsi,“ segir Már.

„Þetta var hvergi gert í heiminum með sama hætti og hér,“ segir Már. Lág dánartíðni segir því að hans mati meira til um skipulögð viðbrögð hér á landi en endilega eðli sjúkdómsins eða hættunnar sem fylgir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert