Almennt séð gilda reglur persónuverndarlaga ekki um fyrirtæki en mögulega þarf að taka tillit til þeirra ef um fámenn fyrirtæki er að ræða. Þetta hefur Fréttablaðið eftir Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, en Vinnumálastofnun telur sig hvorki hafa heimild til að afhenda né birta lista yfir þau fyrirtæki sem gert hafa samkomulag við starfsmenn sína um minnkað starfshlutfall.
Vinnumálastofnun hefur leitað álits Persónuverndar og óskað eftir flýtimeðferð á erindinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðsherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa óskað eftir því að listi yfir fyrirtæki sem hafa nýtt sér hlutabótaleiðina verðir birtur.
Alls hafa um 6.700 fyrirtæki nýtt sér úrræðið en ráðherrarnir hafa gagnrýnt stöndug fyrirtæki sem nýta sér hlutabótaleiðina á sama tíma og þau greiða út arð. Þrjú fyrirtæki hafa hætt að nýta sér hlutabótaleiðina og ætla að endurgreiða Vinnumálastofnun allan kostnað, það eru Skeljungur, Festi og Hagar.
Ekki liggur fyrir hvenær Persónuvernd mun svara erindi Vinnumálastofnunar.