Ranglega var sagt í frétt í Morgunblaðinu í dag, að Hæstiréttur hefði komist að þeirri niðurstöðu að tveir dómarar við Landsrétt hefðu verið vanhæfir í tveimur málum sem fjölluðu um lögmæti lána í erlendri mynt og að málunum hafi verið vísað aftur heim í hérað. Rétt er að Hæstiréttur hefur fallist á beiðnir um að dómum Landsréttar í málunum verði áfrýjað til réttarins. Er beðist velvirðingar á þessum mistökum.
Málin hafa verið í gangi fyrir dómstólum lengi en í þeim er m.a. deilt um hvort lán sem tekin voru upphaflega árið 2005 og önnur lán sem tekin voru árið 2008 til uppgjörs á þeim fyrri hafi verið í erlendum gjaldmiðlum eða í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu.
Í báðum málunum hafði héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að Landsbankinn hefði ekki sýnt fram á að hann ætti lögvarðar kröfur í þeim en Landsréttur sneri dómunum við og taldi upphaflegu lánin hafa verið lögmæt lán í erlendum gjaldmiðlum.
Meðal þeirra röksemda sem lagðar voru fyrir í málskotsbeiðnunum var meint vanhæfi dómara við Landsrétt. Annars vegar að sami dómari hefði dæmt mál um sama lánssamning fyrir bæði héraðsdómi og Landsrétti. Hins vegar að annar dómari hafi starfað sem lögmaður Landsbankans og gætt réttar hans í málum sem vörðuðu sama sakarefni og verið ráðgefandi fyrir bankann í gengistryggingarmálum.