Fólk fái ekki pening fyrir að gera ekki neitt

Ásmundur Einar Daðason vill frekar hafa fólk í vinnu en …
Ásmundur Einar Daðason vill frekar hafa fólk í vinnu en á bótum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra kveðst hafa áhyggjur af því að of mikil áhersla sé lögð á að koma hópum á atvinnuleysisbætur frekar en að koma þeim í vinnu.

„Ég er ekki hvatamaður þess að hvorki námsmenn né aðrir á atvinnuleysisbótum fái fjármagn úr ríkissjóði fyrir að gera ekki neitt. Ég hef í rauninni áhyggjur af því að allar kröfur sem koma fram miða rosalega mikið við það að við eigum að slökkva á öllu og loka öllu, að allir vilji fá fjármagn fyrir að gera ekki neitt,“ sagði Ásmundur í Silfrinu á RÚV.

Atvinnuleysisbætur fyrir námsmenn voru rædd í Silfrinu á RÚV í …
Atvinnuleysisbætur fyrir námsmenn voru rædd í Silfrinu á RÚV í morgun. Fanney Birna Jónsdóttir ræddi við Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra. Skjáskot/RÚV

Hann sagðist frekar vilja koma öllu þessu fólki í virkni og þar með færi fjármagnið í uppbyggingu. Þegar kæmi að atvinnuleysisbótakröfu námsmanna, sem hefði verið hávær undanfarið, vildi hann að þeim sé útveguð vinna frekar en framfærsla.

Um þau efni segir hann þau ánægjulegu tíðindi hafa orðið að sveitarfélögin virðist geta boðið upp á mikinn fjölda starfa, 2.900 hafi þegar verið skráð. Síðan eigi störfin hjá ríkinu eftir að bætast við.

Útilokaði ekki bætur fyrir námsmenn 

Komið hefur fram að staða stúdenta vegna efnahagsástandsins er bág. Þeir geta ekki fengið atvinnuleysisbætur enda ekki í fullu starfi öllu jöfnu og sjá þó margir fram á að vera atvinnulausir í sumar.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, útilokaði í sama þætti ekki að til þess gæti komið að námsmönnum yrði gert kleift að fá bætur, þótt ekki stæði það til þessa stundina. Fyrst sagði hann að skoðað yrði hvernig leiðirnar sem þegar lægju fyrir myndu virka, svo sem fleiri störf og kostur á sumarnámi og bótum, og síðan gætu bætur verið kannaðar.

Lagði til borgaralaun 

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagðist óttast að enn myndu margir falla á milli skips og bryggju í þessum úrræðum, bæði námsmenn og aðrir hópar. Bregðast þyrfti við með því að gera þeim kleift að fá bætur. Hún ræddi einnig borgaralaun, þ.e. skilyrðislausa grunnframfærslu borgaranna með fé úr ríkissjóði.

Þá hugmynd sagði hún ekki eins fjarstæðukennda og stundum væri látið og benti á að einfalt gæti verið að útfæra hana með því að greiða hækka persónuafsláttinn og greiða hann einfaldlega út til þeirra sem ekki nýttu hann. Aðrir héldu áfram að vinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert