102 ára gömul íslensk kona læknaðist á dögunum af Covid-19 eftir að hafa smitast af veirunni á hjúkrunarheimilnu Bergi á Bolungarvík, eins og sagt var frá í fjölmiðlum í vikunni.
Konan, Helga Guðmundsdóttir, er að verða 103 ára núna 17. maí og í viðtali við UNRIC (Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna) segir barnabarn hennar: „Ef einhvern tímann var tími til að fagna, þá er það nú.“
Agnes Veronika Hauksdóttir er barnabarnið og hún var sjálf sjúkraliði í bakvarðasveitinni á Bolungarvík og tók þátt í að hjúkra þeim sem höfðu veikst á Bergi.
„Frómt frá sagt þekkti ég varla orðið sóttkví fyrir faraldurinn. Það kom mér á óvart að amma þekkti það hins vegar,“ segir Agnes við UNRIC.
Eins og þar stendur er engin tilviljun að Helga Guðmundsdóttir sé kunnug sóttkví, en hún var eins árs þegar spænska veikin reið yfir. „Hún hefur talað mikið um spænsku veikina og frændi hennar var meðal annars í sóttkví á bænum þar sem hún ólst upp,“ segir Agnes.
Agnes kveðst hafa óttast mjög um ömmu sína. „Þegar hún var komin með 38 stiga hita hugsaði ég: Þetta er búið. En hún var síðan bara rúmliggjandi í einn dag, þó að henni hafi orðið illt í maganum. Hún er svo hörð af sér að hún neyddi sig til að halda áfram að drekka.“
„En hún er svo jákvæð manneskja, síhlæjandi, og ég er viss um að það hafi skipt máli við að komast í gegnum þetta,“ segir Agnes.
Helga þurfti að vonum að vera í einangrun vegna sjúkdómsins og Agnes var inni á hjúkrunarheimilinu með henni, en alltaf í miklum hlífðarbúnaði. Ættingjar söfnuðust saman fyrir utan gluggann og hvöttu þær til dáða.
Helga Guðmundsdóttir hefur búið á Bolungarvík alla tíð frá því hún giftist þar Gunnari Hirti Halldórssyni sjómanni og verslunarmanni fyrir tæpum 70 árum.
Sagt er frá því að þegar sonur hennar var tveggja vikna gamall fékk smitaðist hún af berklum og varð að fara suður á berklahæli. Hún hefur því staðið ýmislegt af sér, tvo heimsfaraldra, berkla og tvær heimsstyrjaldir.