Sígarettan líka tekin af Villa Vill

Ljósmynd/Tímarit.is

Bubbi Morthens er ekki fyrsta íslenska stórstjarnan sem lendir í því að sígaretta sé fjarlægð af auglýsingu með mynd af honum. Í því lenti einn „dáðasti söngvari sem íslenska þjóðin hefur átt“, eins og honum er lýst í dagblaðinu Vísi árið 2008, líka.

Maðurinn sem um ræðir er Vilhjálmur Hólmar Vilhjálmsson. Hann varð skyndilega reyklaus á mynd sem hann hafði áður reykt á árið 1976. 

Auglýsing fyrir plötuna hans Með sínu nefi birtist í dagblöðum árið 1976 og sást Vilhjálmur þar með sígarettu í munni. Eftir að auglýsingin birtist var athygli forstjóra ónefnds útgáfufyrirtækis „vakin á því að ekki væri við hæfi að sýna þennan þekkta söngvara með sígarettu í munninum“, segir í frétt frá þessum tíma sem aðdáendasíða Vilhjálms á Facebook vakti athygli á nýverið. 

Hér má sjá þriðju útgáfu myndarinnar.
Hér má sjá þriðju útgáfu myndarinnar. Ljósmynd/Tímarit.is

Sígarettan horfin og fingurnir líka

Ábendingin var tekin til greina en auglýsingin var næst birt mánuði síðar og þá hafði henni verið breytt þannig að bæði fingur Vilhjálms og sígaretta voru horfin. Reyndar birtust þrjár útgáfur af myndinni í nokkrum auglýsingum. Með sígarettu og fingrum, án sígarettu og fingra og án sígarettu en með fingrum.

Er breytingin tekin sem gott dæmi um „þann árangur sem ná má í baráttu gegn því að birtar séu óbeinar tóbaksauglýsingar“, segir í frétt frá árinu 1976.

Eins og Morg­un­blaðið greindi frá í gær fjar­lægði Borg­ar­leik­húsið síga­rettu Bubba af öllu helsta markaðsefni söng­leiks­ins Níu lífa vegna kvart­ana. Auglýsingastofan Brandenburg tók þá málin í sínar eigin hendur og birti 21 útgáfu af myndinni af Bubba. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert