Aðgerðir verða kynntar á morgun

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segist skilja áhyggjur námsmanna yfir mögulegu atvinnuleysi í sumar. Hún segir að verið sé að vinna að aðgerðapakka fyrir stúdenta sem verði kynntur á morgun.

Áhersla verði lögð á að skapa störf fyrir stúdenta og aðrar leiðir sem feli í sér virkni fyrir sem flesta. Mikið hefur borið á kröfum stúdenta um rétt námsmanna til atvinnuleysisbóta í sumar. Margir stúdentar eru ekki enn komnir með sumarvinnu og hafa Landssamtök íslenskra stúdenta, Stúdentaráð Háskóla Íslands og fleiri hagsmunasamtök krafist þess að stúdentum standi atvinnuleysisbætur til boða í sumar.

Lilja segist vona að fyrirhugaður aðgerðapakki nái að takmarka atvinnuleysi stúdenta verulega. Í pakkanum verður farið yfir ýmis mál sem snerta fjárhagsöryggi og hagsmuni stúdenta á tímum kórónuveirufaraldursins. „Það eru ýmsar aðgerðir sem við erum að fara í,“ segir Lilja í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert