Atvinnuleysisbætur eiga að vera neyðarúrræði

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Auðvitað eru þeir sem eru á atvinnuleysisbótum ekki þar vegna þess að þeir vilji ekki vinna. Það sem ég er hins vegar að segja er að við fórum af stað með úrræði sem miða að því að skapa störf fyrir námsmenn vegna þess að við viljum hafa þá í virkni, við viljum geta skapað störf fyrir sem flesta,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. 

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Ásmund út í ummæli hans í Silfrinu í gær, en þar sagðist Ásmundur ekki vera „hvatamaður þess að hvorki námsmenn eða aðrir sem eru á atvinnuleysisskrá fái fjármagn úr ríkissjóði fyrir að gera ekki neitt“.

Helga sagði þessi ummæli Ásmundar endurspegla það viðhorf að þeir sem leiti ásjár í hinu opinbera tryggingakerfi sé fólk sem fái bætur fyrir  að gera ekki neitt. „Eins og það fólk hafi val um að hafa eða hafa ekki atvinnu,“ sagði Helga. 

„Telur hæstvirtur ráðherra að þeir 60.000 sem nú eru á atvinnuleysisskrá vegna COVID séu að velja að vera á atvinnuleysisskrá?“ spurði Helga. „Telur ráðherra að þeir námsmenn, sem nú ljúka vorönn og fá enga vinnu, vilji frekar vera á atvinnuleysisbótum en að vera í vinnu?“

Ásmundur sagði það gefa auga leið að svo væri ekki. Áhersla sé lögð á að koma sem flestum námsmönnum í vinnu, síðan verði staðan skoðuð að nýju. 

Ásmundur sagði að í morgun hafi verið komin 3.076 störf frá sveitarfélögum og við það eigi eftir að bætast störf frá opinberum stofnunum. 

„Það sem ég er að segja er að ég tel miklu betra að fjármunum sé varið í að skapa störf fyrir þetta unga fólk, fyrir námsmenn og aðra og það er það sem við ætlum okkur að gera. Ég tel skynsamlegra að auka fjárveitinguna í þessi sumarstörf því það er hægt að gera það, heldur en að setja fólk á atvinnuleysisbætur vegna þess að atvinnuleysisbætur eru neyðarúrræði,“ sagði Ásmundur. „Vonandi tekst okkur ætlunarverkið, að skapa nægilega mörg störf fyrir alla námsmenn í landinu. Þá skulum við taka umræðuna aftur, kæri þingmaður.“

Ásmundur sagði að öryggisnet verði tryggt fyrir þá námsmenn sem ekki fá atvinnu í sumar, en það eigi að vera neyðarúrræði. 

„Við eigum ekki að gefast upp á því verkefni að skapa störfin og fjölda á atvinnuleysisskrá. Hins vegar verð ég fyrstur manna ef það tekst ekki að skapa nægilegan fjölda starfa til þess að tryggja það að netið grípi þessa einstaklinga. En við eigum að skapa störf og ekki gefast upp fyrir því, áður en við leggjum af stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert