Engar launahækkanir í 5 og hálft ár

Tilboð Icelandair hefur verið sent félagsmönnum Flugfreyjufélags Íslands.
Tilboð Icelandair hefur verið sent félagsmönnum Flugfreyjufélags Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á meðal tillagna Icelandair að kjarasamningi við Flugfreyjufélag Íslands er að engar launahækkanir verði greiddar til 1. október 2023. Síðasta hækkun til flugfreyja var 1. maí 2018, en flugfreyjur yrðu þannig án launahækkana í 5 og hálft ár samkvæmt tilboði Icelandair. Gildistími kjarasamningsins yrði frá 15. maí næstkomandi til 31. desember 2025. Verði hins vegar ekki hagnaður á rekstrinum árið 2023 yrði félaginu heimilt að opna samning og hefja viðræður að nýju.

Í athugasemdum Flugfreyjufélagsins við tillögurnar kemur fram að ef gert sé ráð fyrir hóflegri verðbólgu, um 2,5 prósent á ári, á tímabilinu 1. janúar 2019 til 31. desember 2023, þýði þetta kaupmáttarrýrnun upp á um 13 prósent.

Þá leggur Icelandair til að launatrygging nái til 14 daga í stað mánaðar, skerðingar á greiðslu vegna rauðra daga, hækkunar flugtímahámarka, og að launatafla stoppi í flokki 15. Þá mun regla um 50 flugtíma á 15 dögum falla úr kjarasamningum, 6 daga reglan sömuleiðis og heimilt verður að mæta til vinnu fyrir klukkan átta eftir frídag auk fleiri breytinga.

Tillögur Icelandair voru sendar til félagsmanna Flugfreyjufélagsins í kvöld, en í bréfi frá Guðlaugu Líney Jóhannsdóttur, formanni félagsins, kemur fram að stjórn og samninganefnd félagsins telji tilboðið óásættanlegt.

„Það umturnar núverandi kjarasamningi með tilheyrandi kjararýrnun, afsali réttinda og stórfelldum launalækkunum til frambúðar, án þess að atvinna þeirra 900 félagsmanna sem nú eru í uppsögn, sé tryggð,“ segir í bréfinu. Þá segir að hvorki stjórn, trúnaðarráð né samninganefnd eru reiðubúin að samþykkja tilboðið. Tilboðið feli í sér verulega kjaraskerðingu til frambúðar auk skerðinga á réttindum og hvíld. Með samþykki félagsmanna á tilboðinu væri um gjörbreytt vinnuumhverfi að ræða. 

Í bréfinu segir að við kjaraviðræður hafi hlutunum verið stillt þannig upp að samninganefnd og félagsmenn Flugfreyjufélagsins hafi framtíð Icelandair í höndum sér. „Að slíkar þvinganir séu viðhafðar á jafn alvarlegum tímum og raun ber vitni er grafalvarlegt.“

„Stöndum vörð um störfin okkar, ekki láta blekkjast af umræðu og hræðsluáróðri sem við höfum ekki stjórn á,“ segir í lok bréfsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert