Frumvarpið feli í sér afturför og réttindaskerðingu

Guðríður segir öll þau mál sem hefur verið fjallað um …
Guðríður segir öll þau mál sem hefur verið fjallað um í fjölmiðlum undanfarin ár og varða endursendingar fólks til Grikklands falla undir ákvæðið sem nú eigi að breyta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rauði krossinn á Íslandi telur að frumvarp um breytingar á útlendingalögum feli í sér verulega afturför og réttindaskerðingu fyrir fólk á flótta. Í frumvarpinu séu ýmsar breytingar til hagsbóta en aðrar skerði réttindi flóttafólks verulega frá því sem nú er. 

Fyrsta umræða um frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um útlendinga stendur nú yfir á Alþingi, en umræðan hófst 5. maí. Frumvarpið var fyrst sett inn á samráðsgátt stjórnvalda í tíð Sigríðar Á. Andersen og lagt fram af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur.

„Aðaláhyggjuefni okkar lýtur að því að það er verið að taka út heimild stjórnvalda, Útlendingastofnunar og kærunefndar til að líta til sérstakra aðstæðna og meta þær þegar um er að ræða fólk sem hefur hlotið alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum,“ segir Guðríður Lára Þrastardóttir. lögfræðingur hjá Rauða krossinum. 

Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur og teymisstjóri í málefnum umsækjenda um …
Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur og teymisstjóri í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum. Ljósmynd/Rauði krossinn

Á síðasta ári fengu átta fullorðnir og sex börn sem höfðu fengið alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum efnismeðferð hér á landi og alþjóðlega vernd í kjölfarið á grundvelli þess ákvæðis sem nú á að breyta, 2. málsgrein 36. greinar laganna, en nái frumvarpið fram að gangi hverfur sú heimild sem felst í ákvæðinu úr lögunum. 

„Undir þetta ákvæði falla öll þau mál sem hefur verið fjallað um í fjölmiðlum undanfarin ár og varða endursendingar fólks til Grikklands,“ segir Guðríður. 

Í andstöðu við ummæli félags- og barnamálaráðherra

Guðríður segir að dómsmálaráðherra hafi oft tekið fram að flóttafólk sé ekki sent úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, en að málið snúi í rauninni ekki að henni. 

„Íslensk stjórnvöld hafa ekki sent fólk til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar í 10 ár. Við höfum hins vegar sent fólk sem er nú þegar með vernd í Grikklandi til baka, og það hefur verið umdeilt af því að sú vernd færir fólki afar takmörkuð réttindi,“ segir Guðríður. 

Hún segir að dómsmálaráðherra túlki breytingarnar þannig að þær snúist aðeins um styttri málsmeðferðartíma. 

„Og vissulega mun þetta stytta málsmeðferðartímann, en það er ekki hægt að réttlæta endursendingar á veikum börnum til Grikklands af því að það sé svo nauðsynlegt að stytta málsmeðferðartímann.“

Þá segir Guðríður breytingarnar vera í andstöðu við það sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hafi áður sagt um endursendingar barna til Grikklands. 

„Félags- og barnamálaráðherra talaði um að það í byrjun árs að það væri vinna í gangi í þremur ráðuneytum til þess að reyna að leysa þetta mál um endursendingar á börnum til Grikklands. Þetta frumvarp er náttúrulega í algjörri andstöðu við það.“

Segir 42. grein hafa litla þýðingu þegar kemur að Grikklandi

Guðríður segir að breytt mat Útlendingastofnunar vegna kórónuveirufaraldursins hafi verið á grundvelli umrædds lagaákvæðis sem nú eigi að breyta. 

„Það hefur mikill fjöldi mála verið tekinn til efnismeðferðar vegna COVID-19, sem annars hefðu farið öðruvísi. Það er í rauninni gert á grundvelli þessa ákvæðis, þetta er matskennt ákvæði og Útlendingastofnun metur það svo að ástandið sem skapast hefur vegna kórónuveirunnar falli undir sérstakar aðstæður.“

Þá segir Guðríður að 42. grein útlendingalaga geti varla staðið í vegi þess að fólk með vernd í Grikklandi, Ungverjalandi eða sambærilegum löndum verði endursent, en dómsmálaráðherra hefur sagt að íslensk stjórnvöld vísi fólki aldrei úr landi ef það feli í sér brot á 42. grein útlendingalaga sem byggist á 3. grein Mannréttindasáttmála Evrópu. 

„Það er gerð mjög há krafa um alvarleikastig í 42. grein. Það væri helst ef Mannréttindadómstóll Evrópu kæmist að þeirri niðurstöðu að endursendingar á fólki með alþjóðlega vernd í ákveðnum ríkjum fæli í sér brot á 3. grein MSE. Ég sé það ekki gerast án undangengins dóms Mannréttindadómstólsins að kærunefnd útlendingamála myndi fallast á það að óbreyttu, enda hefur hún hefur ekki gert það hingað til.“

Nái frumvarpið fram að gangi verði því engin lagaheimild í útlendingalögum til þess að taka til efnismeðferðar mál flóttafólks sem þegar hefur vernd í öðru ríki að sögn Guðríðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka