Ók of hratt og var með bilaðar bremsur

mbl.is/​Hari

Ökumaður bif­reiðar sem lést í um­ferðarslysi fyr­ir ári í Langa­dal ók of hratt og missti stjórn á bif­reiðinni. Niðurstaða rann­sókn­ar á bif­reiðinni sýn­ir að heml­ar bif­reiðar­inn­ar voru bilaðir og að lík­ur eru á að hemla­búnaður hafi verið í bág­bornu ástandi þegar aðalskoðun var fram­kvæmd tæp­um þrem­ur mánuðum fyr­ir slysið. Þetta er niðurstaða rann­sókn­ar­nefnd­ar sam­göngu­slysa sem birt var fyr­ir viku. 

Að kvöldi 23. apríl 2019 ók ökumaður fólks­bif­reið vest­ur Norður­lands­veg í Langa­dal. Ökumaður­inn var einn á ferð. Rétt við bæ­inn Æsustaði missti ökumaður­inn hægri hjól bif­reiðar­inn­ar út fyr­ir slit­lagið á bein­um kafla veg­ar­ins. Vitni voru að slys­inu. Ökumaður­inn náði að koma bif­reiðinni aft­ur inn á veg­inn en beygði of harka­lega þannig að bif­reiðin fór að skríða til og rann á hlið út af veg­in­um vinstra meg­in. Bif­reiðin byrjaði fljót­lega að velta og stöðvaðist á hvolfi utan veg­ar.

Ökumaður­inn var spennt­ur í ör­ygg­is­belti og loft­púði í stýri sprakk út. Bif­reiðin valt marg­ar velt­ur og hlaut ökumaður­inn ban­væna fjölá­verka í slys­inu.

Öku­tækið var fólks­bif­reið af gerðinni Hyundai Mat­rix, ný­skráð árið 2007. Hún var tek­in til skoðunar 6. fe­brú­ar 2019 og hlaut skoðun án at­huga­semda. Hún var út­bú­in slitn­um negld­um vetr­ar­hjól­börðum þar sem marg­ir nagl­anna voru horfn­ir eða brotn­ir. Rann­sókn leiddi í ljós að henni hafði verið ekið á hjól­börðunum með of háum loftþrýst­ingi í tölu­verðan tíma. Var miðhluti mynst­urs­ins meira slit­inn en út við kant­ana.

Rann­sókn­in leiddi einnig í ljós bil­un í hemla­búnaði. Hemla­borðar að aft­an voru ónýt­ir og lík­ur á að heml­un aft­ur­hjóla hafi verið tak­mörkuð. Stöðuhem­ill var óvirk­ur. Hemla­búnaður að fram­an var tals­vert slit­inn og breidd slit­flat­ar und­ir ör­ygg­is­mörk­um.

Niðurstaða rann­sókn­ar á bif­reiðinni var m.a. sú að lík­ur eru á að hemla­búnaður hafi verið í bág­bornu ástandi þegar aðalskoðun var fram­kvæmd tæp­um þrem­ur mánuðum fyr­ir slysið.

Skýrsla rann­sókn­ar­nefnd­ar­inn­ar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert