Tveggja milljarða umframeftirspurn

Sótt var um stofnframlög til byggingar eða kaupa á alls …
Sótt var um stofnframlög til byggingar eða kaupa á alls 774 almennum íbúðum. mbl.is/Sigurður Bogi

Tveggja milljarða króna umframeftirspurn reyndist vera eftir fjárstuðningi til reksturs hagkvæmra leiguíbúða, svokallaðra almennra íbúða. Frestur til að sækja um stofnframlög frá ríkinu rann út 29. apríl.

Sótt var um stofnframlög til byggingar eða kaupa á alls 774 almennum íbúðum fyrir 5,6 milljarða króna til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem veitir stofnframlögin.

Til úthlutunar að þessu sinni eru allt að 3,7 milljarðar og því ljóst að einungis hluti áformanna mun fá brautargengi, að því er segir í tilkynningu.

Tafla/HMS

Enn vanti hagkvæmar leiguíbúðir

„Þessi mikla umframeftirspurn bendir til þess að enn vanti hagkvæmar leiguíbúðir á markaðinn. Um leið er jákvætt að sjá að það eru margir sem eru tilbúnir að byggja upp húsnæði og leigja út í langtímaleigu á hagkvæmu verði með stuðningi ríkis- og sveitarfélaga,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS, í tilkynningunni.

„Við vitum að það eru tekjulægri hóparnir sem eiga erfiðast uppdráttar á húsnæðismarkaði. Þeir búa við meira óöryggi en aðrir og greiðsla húsaleigu, eins og hún er á almennum markaði, er þeim þyngri byrði en öðrum hópum. Með lögum um almennar íbúðir sem sett voru árið 2016 getum við nú tryggt þeim öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði.“

Tafla/HMS

Alls bárust umsóknir um 35 verkefni frá 20 umsækjendum. Sótt var um stofnframlög til byggingar á 521 íbúð, kaupa á 248 íbúðum og til breytingar á húsnæði í eigu sveitarfélags í fimm íbúðir. Sótt er um stofnframlög í 18 sveitarfélögum um land allt en flestar íbúðirnar eiga að vera á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt umsóknum er fyrirhugað að byggja 279 íbúðir ætlaðar leigjendum undir tekju- og eignamörkum, 166 íbúðir fyrir námsmenn, 144 félagslegar íbúðir á vegum sveitarfélaga, 106 íbúðir fyrir öryrkja og fatlaða, 45 íbúðir til byggingar sértækra búsetuúrræða og 34 íbúðir fyrir aldraða.

Frá því fyrsta úthlutun stofnframlaga fór fram árið 2016 hefur HMS, áður Íbúðalánasjóður, úthlutað 11,7 milljörðum kr. í stofnframlög til byggingar og kaupa á 2.123 almennum íbúðum.

Ríki og sveitarfélög leggja bæði til stofnframlög til íbúðabygginganna og miðað við stofnframlög til úthlutunar má búast við að íbúðaframkvæmdir fyrir í kringum 17 milljarða kr. munu fara af stað eftir að tekin hefur verið ákvörðun um úthlutun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert