„Veiran er ekki farin úr samfélaginu“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

„Eins og staðan er núna eru fá samfélagsleg smit í gangi en við getum líka sagt að veiran er ekki farin úr samfélaginu. Hún er einhvers staðar,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Fjórða daginn í röð greindist ekkert nýtt smit og eru 18 með virk smit í samfélaginu. Einn liggur á spítala en ekki á gjörgæslu. Aðeins 18 sýni voru tekin síðasta sólarhring og segir Þórólfur eðlilegt að verið sé að slaka á í sýnatöku nú. 

Núverandi fyrirkomulag um ferðatakmarkanir gildi áfram

Næstu skref í aflétt­ing­um á sam­komutak­mörk­un­um verða 25. maí og segir Þórólfur að staðan sé óbreytt hvað varðar að hægt verði að aflétta takmörkunum hraðar ef vel gengur að hemja faraldurinn. 

Í dag mun hann senda ráðherra tillögur um ferðatakmarkanir sem taka gildi eftir 15. maí. Í þeim felst meðal annars að núverandi fyrirkomulag um að allir sem komi til landsins fari í tveggja vikna sóttkví muni gilda áfram næstu vikur og mánuði eða þar til niðurstöður liggi fyrir um nánara fyrirkomulag. 

Þá mun Þórólfur á næstu dögum senda heilbrigðisráðherra tillögur um opnun sundstaða sem tekur gildi 18. maí. Hann segir leiðbeiningar um starfshóp um sundstaði vera á lokametrunum og verði tilbúnar á næstu dögum. 

„Þetta er undir okkur sjálfum komið“

Þórólfur býst við að þriggja vikna millibili verði haldið á milli afléttingu samkomutakmarkana og því megi búast við þarnæstu afléttingum 15. júní. „Við getum tekið nokkuð stór skref í hvert skipti en við þurfum líka að vera undir það búin að geta séð nokkurs konar bakslag. Ég held að það sé enginn heimsendir fyrir okkur ef það gerist,“ sagði Þórólfur á fundinum. „Þetta er undir okkur sjálfum komið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert