Bjarga því sem hægt er að bjarga

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Opnun landamæra minnkar óvissu ferðaþjónustufyrirtækja til muna að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Eftir standi að tryggja rekstur Icelandair, en án félagsins yrði ferðaþjónustan ekki svipur hjá sjón. 

Jóhannes segir í samtali við mbl.is að aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í dag séu jákvætt skref í rétta átt.

„Við teljum þetta verulega jákvætt skref. Það sem skiptir mestu máli er að nú höfum við plan til þess að líta til, fylgja og útfæra og við hlökkum til að leggja okkar af mörkum að útfæra það sem best með stjórnvöldum,“ segir Jóhannes.

„Þetta minnkar óvissuna, fyrirtæki geta sagt viðskiptavinum sínum sem hafa áhuga á að koma eða eiga jafnvel bókað í sumar, hvað sé fram undan og við hverju megi búast. Það skiptir fyrirtæki miklu máli til að geta farið að huga að plönum inn í framtíðina.“ 

Rík­is­stjórn­in ákvað í morg­un að stefna að því að eigi síðar en 15. júní geti þeir sem koma til lands­ins farið í skimun fyr­ir kór­ónu­veirunni á Kefla­vík­ur­flug­velli. Reyn­ist sýna­taka nei­kvæð þarf viðkom­andi þá ekki að fara í 2 vikna sótt­kví. Þá er einnig gert ráð fyr­ir að ný­leg vott­orð um sýna­töku er­lend­is verði einnig tek­in til greina meti sótt­varna­lækn­ir þau áreiðan­leg. 

„Það er líka verulega jákvætt að sjá að það liggur greinilega mikil og góð vinna þarna að baki. Maður sér það á skýrslu sem var skilað til ríkisstjórnarinnar í morgun, en þar er farið ítarlega yfir mörg og góð mál sem varða ferðaþjónustuna. Það er mjög gott að sjá að þar sé drepið á flestum þeim atriðum sem við höfum verið að velta fyrir okkur að undanförnu. Það gefur okkur þá tilefni til þess að ræða við stjórnvöld hvernig þetta verði best gert og hvaða skilyrði fyrirtæki þurfi að uppfylla, segir Jóhannes.

„Við höfum komist að því að það geti verið flóknara að opna landamæri en að loka. Það er mjög mikilvægt fyrir fyrirtækin að óvissan sé sem minnst og að menn sjái aðeins inn í framtíðina. Eins að það sé möguleiki á því að eftir 15. júní geti eitthvað farið að hreyfast.“

Reyna að verja bókanir sem ekki hafa verið afbókaðar

Jóhannes segist gera ráð fyrir því að fyrirtæki í ferðaþjónustunni reyni áfram að höfða til Íslendinga í sumar. 

„Þetta er líka mikilvægt í því sambandi. Þeim mun meira sem við getum séð fyrir, þeim mun betur geta fyrirtæki gert sér grein fyrir því hvort þær bókanir sem gerðar hafa verið komi til landsins og þá að hvaða miklu leyti þau geti lofað Íslendingum þjónustu. Þeim mun betri mynd sem við höfum af þessu, þeim mun betri þjónustu getum við veitt innlenda markaðnum.“

Að sögn Jóhannesar verður áherslan lögð á að tryggja bókanir sem þegar hafa verið gerðar. 

„Þegar maður horfir á þetta raunhæft séð eigum við kannski mestan möguleika á að verja þær bókanir sem eru ennþá skráðar í kerfum fyrirtækja, það er að segja fólk sem hefur enn ekki afbókað ferðir síðla sumars. Það eru meiri líkur á að það fólk nýti bókanir sínar en að hægt verði að selja mikið af nýjum bókunum. Þetta skiptir miklu máli fyrir það, að þeir ferðamenn geti þá áttað sig á stöðunni.“ 

Mikilvægt að rekstur Icelandair verði tryggður

Þá segir Jóhannes að rekstur Icelandair skipti ferðaþjónustuna gríðarlegu máli. Forsenda þess að hér verði einhver ferðaþjónusta í sumar sé að rekstur félagsins verði tryggður. 

„Stóra breytan í málinu er náttúrulega flugið. Við sjáum það að flugfélög um allan heim eru í miklum vanda og það er engin undantekning hér á landi. Icelandair er í töluverðum og alvarlegum vanda og við leggjum gríðarlega áherslu á það að úr því verði að leysast. Ef ekki leysist farsællega úr þessu þýðir það einfaldlega að ferðaþjónusta á Íslandi verður ekki svipur hjá sjón. Við getum ekki treyst á það að erlend flugfélög geti komið hingað inn að því marki sem Icelandair hefur gert,“ segir Jóhannes.  

„Þetta fyrirtæki er og hefur verið grundvallarþáttur í íslenskri ferðaþjónustu og það sem flest annað er byggt á. Við þurfum mjög mikið á því að halda að rekstur þess verði tryggður. Það er held ég alveg skýrt hvað þurfi að gerast til að félagið getur haldið áfram rekstri og geti áfram verið grunnlífæð ferðaþjónustunnar á Íslandi og þar með efnahagslegrar uppbyggingar og velsældar í landinu.“

Jóhannes segir að úrræði stjórnvalda fyrir ferðaþjónustuna muni áfram skipta gríðarlegu máli. 

„Tekjufall fyrirtækjanna verður áfram eins mikið og það getur verið. Jafnvel þó að við náum að bjarga einhverju erum við algjörlega óörugg varðandi sóttvarnareglur og opnanir annarra landa. Við erum ekki að horfa á neinar ákvarðanir núna sem bjarga einhverju sem við töldum að væri frá horfið. Þetta snýst frekar um að ná að nýta þau tækifæri sem eftir standa. Fyrir þetta sumar reynum við bara að bjarga því sem er mögulega hægt að bjarga á annað borð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert