Frídögum fækki og laun fryst

Keflavíkurflugvöllur Boeing 757-200-þota Icelandair, Katla, er ein margra sem nú …
Keflavíkurflugvöllur Boeing 757-200-þota Icelandair, Katla, er ein margra sem nú standa óhreyfðar á vellinum og bíða þess að hefja sig til flugs á nýjan leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Orlofsdögum flugmanna Icelandair verður fækkað um allt að fimm og laun þeirra verða ekki hækkuð árin 2021 og 2022. Tillögur um þetta eru á meðal þess sem fulltrúar Icelandair hafa borið á borð í kjaraviðræðum við samninganefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Flugfreyjur þurfa að bíða lengur eftir launahækkunum ef tillögur flugfélagsins um breytingar á kjarasamningi þeirra ná fram að ganga, en Icelandair leggur til að laun flugfreyja verði ekki hækkuð fyrr en í október 2023. Laun þeirra hafa ekki hækkað síðan í maí 2018. Ef gert er ráð fyrir hóflegri verðbólgu gæti verið um 13% kaupmáttarrýrnun að ræða fyrir flugfreyjur á tímabilinu.

Icelandair leggur einnig til að flugfreyjur fái eingreiðslu upp á 202.000 krónur en hún er háð því skilyrði að af hlutafjárútboði verði. Flugfélagið leggur til að föst laun flugmanna, sem og 2% launahækkun fyrir 60 ára og eldri, muni ekkert breytast. Hið sama má segja um desember- og orlofsuppbót.

Þá leggur Icelandair til að flugmenn muni geta gengið að einu helgarfríi vísu mánaðarlega í stað eins og hálfs helgarfrís í mánuði og tveggja helgarfría þriðja hvern mánuð. Svipaðar breytingar eru lagðar til fyrir nýjan kjarasamning flugfreyja.

Í tillögum flugfélagsins felst að núverandi kaupaukakerfi flugmanna, sem byggir meðal annars á eldsneytisnýtingu, verði skipt út fyrir kerfi sem byggir á arðsemi samsteypunnar Icelandair Group.

Markmið þeirra breytinga sem Icelandair leggur til á kjarasamningi flugmanna er samkvæmt heimildum Morgunblaðsins að fjölga meðalflugtímum flugmanna um það sem nemur ígildi eins viðbótar Evrópuflugs mánaðarlega, að því er fram kemur í umfjöllun um málefni Icelandair í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert