Tillaga alþjóðlegu auglýsingastofunnar M&C Saatchi, í samstarfi við íslensku auglýsingastofuna Peel, hlaut hæstu einkunn valnefndar af innsendum tilboðum fyrir markaðsverkefnið „Ísland - saman í sókn.” Verkefnið er hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsstofu, sem mun sjá um framkvæmdina.
Um er að ræða markaðs- og kynningarverkefni fyrir áfangastaðinn Ísland á völdum erlendum mörkuðum í því skyni að styrkja ímynd Íslands, auka eftirspurn og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Alls verður 1.500 milljónum króna varið í verkefnið en gert er ráð fyrir að stærsti hluti þess fari í birtingar á erlendum mörkuðum. Útboð fyrir birtingarhluta verkefnisins verður auglýst á vef Ríkiskaupa á næstu dögum, segir enn fremur í tilkynningunni.
Fram kemur, að auglýst hafi verið eftir tillögum að stefnumörkun og framkvæmd verkefnisins á Evrópska efnahagssvæðinu 2. apríl. Fimmtán tilboð bárust í verkefnið.
Þrettán manna valnefnd, skipuð fulltrúum ráðherra ferðamála, Samtaka ferðaþjónustunnar, Reykjavíkurborgar, markaðsstofu landshlutanna og Íslandsstofu, fór yfir tilboðin og lagði mat á þau. Ríkiskaup fór með framkvæmd útboðsins.
„Tillaga M&C Saatchi og Peel hlaut hæstu heildareinkunnina og var með hæstu einkunn í níu af ellefu hæfnisþáttum. Nú stendur yfir biðtími samkvæmt lögum um opinber innkaup. Að honum loknum kemst á bindandi samningur. Fram kemur í rökstuðningi valnefndar að innsendingin sé sterk og byggi á traustri stefnumótun. Hugmyndin sé bæði áhrifarík og nái að tengja saman ólíka þætti til að styrkja ímynd landsins. Skýr áhersla sé lögð á sjálfbærni og hugmyndin tengist vel öðrum útflutningsgreinum Íslands,“ segir í tilkynningunni.