Pétur Magnússon hefur verið ráðinn forstjóri Reykjalundar, endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS. Hann tekur til starfa 1. júní. Pétur er lyfjafræðingur að mennt og með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.
„Pétur hefur farsæla reynslu af stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu, en hann hefur stýrt Hrafnistuheimilunum sl. 12 ár. Á þeim árum hefur hann verið í fararbroddi í öldrunarþjónustu á landsvísu og leitt umfangsmikla uppbyggingu Hrafnistuheimilanna og átt frumkvæði að nýjungum og breytingum í þjónustu við aldraða. Hann hefur víðtæka reynslu af samskiptum við stjórnvöld og félagasamtök sem mun reynast mikilvægt fyrir framtíðarþróun endurhæfingarstarfsemi á Reykjalundi,“ segir í tilkynningu.
Herdís Gunnarsdóttir lét af störfum sem settur forstjóri Reykjalundar í nóvember, en síðan þá hefur starfað starfsstjórn sem sett var á fót fyrir tilstilli heilbrigðisráðherra.