Ríkisstjórnin ræddi afléttingu ferðatakmarkana

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra á …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra á leið af ríkisstjórnarfundi í ráðherrabústaðnum á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tillögur stýrihóps um afléttingu ferðatakmarkana voru ræddar af forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og utanríkisráðherra á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Ekki fást frekari upplýsingar um málið frá ríkisstjórninni að svo stöddu og ekki liggur fyrir hvort til standi að ríkisstjórnin kynni eitthvað þessu tengt í dag.

Núverandi fyrirkomulag, sem kveður á um að allir sem koma til landsins skuli sæta tveggja vikna sóttkví, með möguleika á undanþágu, er í gildi til 15. maí en fyrir liggur að það verði framlengt þar til niðurstöður um nánara fyrirkomulag liggja fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert