„Samtal í gangi“ um tilboð Flugfreyjufélagsins

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir félagið tilbúið að …
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir félagið tilbúið að ræða tillögur frá 4. maí. mbl.is/Árni Sæberg

Fundur í kjaradeildu Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair stendur enn yfir, en hann hófst klukkan átta í kvöld í húsakynnum ríkissáttasemjara. Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, segir í samtali við mbl.is að það sé „samtal í gangi“ á milli samninganefndanna og það sé jákvætt.

Hún segir Icelandair ekki enn hafa lagt fram annað tilboð, en samningstilboði sem sent var á félagsmenn í gær var einróma hafnað af félagsmönnum Flugfreyjufélagsins.

„Það var alveg ljóst af okkar hálfu að það var einhugur um að hafna því, en við erum til í að ræða málin á þeim grunni sem við lögðum til við Icelandair þann 4. maí,“ segir Guðlaug, en samtal um það tilboð er í gangi núna.

Guðlaug vill þó ekki ganga alveg svo langt að segja að hljóðið í flugfreyjum sé betra í kvöld en það hefur verið síðustu daga, en samningstilboðið í gær vakti mikla reiði og óánægju hjá félagsmönnum. Guðlaug sagði í samtali við mbl.is í dag að það fæli í sér kjaraskerðingu upp á 40 prósent. Þá fól tilboðið einnig í sér að flugfreyjur gætu ekki vænst launahækkana fyrr en 1. október 2023, en þær fengu síðast hækkun um mitt ár 2018.

Þá vakti bréf Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, til starfsfólks á sunnudag einnig töluverða reiði, en í því sagði hann meðal annars að starfsfólkið væri helsta hindrunin í vegi fyrir því að hægt væri bjarga félaginu.

Aðspurð segist Guðlaug ekki gera ráð fyrir að fundinum ljúki alveg á næstunni.

Töluverður hópur flugfreyja safnaðist saman fyrir framan húsakynni ríkissáttasemjara í Borgartúni áður en fundurinn hófst til að sýna samstöðu, en þar var líka mætt Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, mætti til að sýna flugfreyjum …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, mætti til að sýna flugfreyjum samstöðu. mbl.is/Árni Sæberg
Hópur flugfreyja safnaðist saman fyrir framan húsakynni ríkissáttasemjara.
Hópur flugfreyja safnaðist saman fyrir framan húsakynni ríkissáttasemjara. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert