Skilur örvæntingu rekstraraðila

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Lögreglan

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segist skilja áhyggjur þeirra rekstraraðila sem enn falla undir takmarkanir almannavarna á samkomum, svo sem kráar- og bareigendur. 

RÚV greindi frá því í dag að hópur bareigenda í miðborg Reykjavíkur hafi sent erindi til lögreglu, Reykjavíkurborgar og almannavarna þar sem farið er fram á leyfi til að opna starfsemina að nýju 25. maí. Fáist ekki leyfi sjái bareigendurnir sig tilneydda til að opna samt sem áður. 

Víðir segir í samtali við mbl.is að hann hafi ekki orðið var við slíka umræðu. Hann geri þó ráð fyrir því að menn vilji vinna saman að ásættanlegum lausnum. 

„Ég geri nú ráð fyrir að menn vilji vera í samstarfi og finna lausnir. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það hvort barir og álíka starfsemi verði opnuð 25. maí eða ekki. Við verðum að sjá hvort það verði og ræða þetta svo,“ segir Víðir. 

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir sagðist í gær hafa tals­verðar áhyggj­ur af því að hóp­sýk­ing­ar geti komið upp við opn­un skemmti­staða, líkt og gerst hef­ur í Suður-Kór­eu og Þýskalandi. Þá sagði Þórólfur að verið væri að skoða hér­lend­is hvort bíða eigi með að opna skemmti­staði.

Víðir segist skilja óánægju fólks, en að ákvarðanir séu teknar með það að leiðarljósi að komast hjá annarri bylgju kórónuveirufaraldursins. 

„Maður skilur auðvitað rekstraraðila að það sé orðið mjög erfitt núna þegar það er búið að vera lokað í þennan tíma. Maður skilur að menn séu að verða örvæntingarfullir. En við verðum bara að sjá til hvernig þessi mál þróast, ég hef samt fullan skilning á því að rekstraraðilar verði örvæntingarfullir þegar það er búið að vera lokað hjá þeim í margar vikur,“ segir Víðir. 

Kráar- og bareigendur hafa talað um að verið sé að mismuna fyrirtækjum, með tilliti til þess að veitingastaðir fái að hafa opið. 

Víðir segir að þetta sé spurning um hvernig leyfi viðkomandi rekstaraðili hafi fyrir starfseminni. Sé eitthvað misræmi þar á milli þurfi að skoða það. 

„Það eru margir sem hafa veitingaleyfi, annað en þetta kráarleyfi, þetta snýst í rauninni um það hvernig leyfi viðkomandi hefur. Það verður eitthvert misræmi í því og það er eitthvað sem þarf að skoða í framhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert