Golli, eða Kjartan Þorbjörnsson, var um helgina verðlaunaður fyrir að eiga mynd ársins á sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands. Myndina tók hann við Grímsvötn á Vatnajökli með dróna sem hann sá ekki eftir að hafa haft með sér þegar hann sá hvernig náttúruöflin stilltu sér upp fyrir hann.
Í myndskeiðinu segir Golli söguna af myndinni, sem er hluti af sex mynda seríu sem einnig hlaut verðlaun á sýningunni sem er opin í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í Grófarhúsinu.
Golli fékk að slást í för með Jöklarannsóknarfélagi Íslands síðastliðið vor þar sem hann myndaði hópinn að störfum við mælingar á jöklinum. Að eigin sögn var hann þó enginn farþegi í hópnum, þar sem plássið í skálanum er takmarkað. Allir þurfa að vinna, líka ljósmyndarinn, sem segist hafa verið með skóflu í annarri hendi og myndavélina í hinni alla ferðina. Lengi vel starfaði Golli hjá Morgunblaðinu og mbl.is en er nú hjá Iceland Review og í sumar verður blaðið gefið út á íslensku vegna stöðunnar í ferðageiranum. Í þeirri útgáfu verður að finna fleiri myndir og umfjöllun um ferðina með Jöklarannsóknarfélaginu.