„Nú þegar sér ekki fyrir endann á þessu urðum við að grípa til einhverra ráða og þá datt okkur í hug að setja upp einfaldan veitingastað, fylgja að sjálfsögðu öllum reglum, en bjóða upp á sannkallaða veislu með einfaldasta og besta rétti í heimi: Grillaðri ostasamloku eða „grilled cheese“, þar til við getum opnað aftur í okkar náttúrulega ástandi,“ segir Ásgeir Guðmundsson, einn eigenda og rekstrarstjóri Röntgen.
Barinn Röntgen opnaði í lok nóvember en gleðin varði stutt þar sem barinn neyddist til að loka sökum herts samkomubanns sem tók gildi 24. mars. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir viðraði áhyggjur sínar af því í gær að hópsýkingar gætu komið upp við opnun skemmtistaða, líkt og gerst hefur í Suður-Kóreu og Þýskalandi. Til skoðunar er hér á landi að bíða frekar með að opna skemmtistaði.
Kráareigandi í miðbænum sagði í samtali við mbl.is um helgina að verið sé að mismuna eigendum kráa og veitingastaða með núgildandi reglum þar sem veitingaleyfi þarf til að halda úti starfsemi á meðan samkomubann gildir.
„Í upphafi þótti mér þetta vera helvíti sérstakt, að taka bari út fyrir sviga. En ég skil markmiðið sem er að koma í veg fyrir það að fólk sem er komið í glas síðla kvölds, að það eigi mögulega erfiðara með því að átta sig á nándarreglunum, og að verið sé að koma í veg fyrir hópsmit í slíkum aðstæðum. En ég get ekki séð hvernig því markmiði væri ekki alveg jafn vel náð á börum ef væru lokunarreglur um takmarkaða opnunartíma,“ segir Ásgeir.
Hann segir að með því að stytta afgreiðslutíma væri lítið mál að fylgja eftir sömu reglum og veitingastöðum er gert að fara eftir í samkomubanninu sem nú gildir. „Röksemdir á bak við þessa mismunun skil ég ekki alveg, en ég er samt jákvæður,“ segir Ásgeir.
Röntgen býr svo vel að vera með veitingaleyfi, en eigendur eru með veitingarekstur annars staðar í húsinu og því hafa Ásgeir og félagar gripið til þess ráðs að opna „pop up“ veitingastað á Röntgen. Staðurinn opnar dyr sínar síðar í dag og boðið verður upp á klassískan rétt: Grillaða ostasamloku. „Þó svo að grilluð samloka verði kannski seint flokkuð sem frumleg þá finnst okkur það eiga við á þessum síðustu og verstu,“ segir hann.
Síðustu vikur hafa tekið á en Ásgeir er bjartsýnn á framhaldið. „Þetta hefur verið erfitt og við erum ungt fyrirtæki en sem betur fer fór þetta vel af stað hjá okkur en engu að síður tókst okkur ekki að safna þannig sjóðum að við lifum þetta af stuðningslaust,“ segir Ásgeir, sem telur líklegt að fyrirtækið nýti sér lokunarstyrk stjórnvalda og jafnvel brúarlán ef á þarf að halda. „En það fer eftir því hvernig þessar aðgerðir okkar takast núna.“
Ásgeir ítrekar að hann skilji þær takmarkanir sem eru í gildi núna. „Við erum ekki í neinu væli þó að okkur finnist hluti af þessu vera sérstakur. Það er hreinlega ekki okkar að meta þannig að okkar undirtónn er að við erum jákvæðir og upplitsdjarfir og hlökkum til þegar aðstæður leyfa að geta aftur opnað í upprunalegri mynd. Þangað til eru allir velkomnir í grillaða samloku.“