Formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) segir óheppilegt að tilboð Icelandair, sem flugfélagið sendi flugmönnum sínum án samþykkis samninganefndar FÍA, hafi ratað í fjölmiðla.
„Þetta er nýtt að trúnaðar sé ekki gætt í svona viðkvæmum hlutum. Ég er nú ekkert mjög hress með þetta,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA, í samtali við mbl.is.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að Icelandair hefði sent flugmönnum sínum tilboð og að í kjölfarið hafi Jón Þór sent félagsmönnum sínum bréf þar sem hann varar við því að í tölvupósti Icelandair sé ekki um að ræða nýjan kjarasamning og hvetur flugmenn til þess að ítreka við flugfélagið að samningsumboð sé hjá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna.
Jón Þór segir að bréfið hafi vissulega ekki verið til dreifingar. Fjarfundur var haldinn með félagsmönnum í gær og segir Jón Þór að hjarta félagsmanna slái með fyrirtækinu og að samstaðan sé algjör þrátt fyrir útspil Icelandair.
„Það gilda lög í þessu landi og kjarasamningum er bara ekki komið á með þessum hætti. Þetta er óheppilegt en þótt það hlaupi snurða á þráðinn í kjaraviðræðum þá er það ekkert nýtt. Það hefur yfirleitt verið leyst manna á milli en ekki í fréttamiðlum. Það er þannig sem ég lít á það. Við erum enn í samtali við Icelandair og við munum landa þessu máli.“
Tímasetning fyrir næsta fund félagsins með Icelandair hefur ekki verið ákveðin og segir Jón Þór að tilboð Icelandair hafi aldrei verið grundvöllur viðræðna.