Flestir kornbændur eru að ljúka við eða hafa lokið við sáningu í vor. Ræktunarstörfin hafa gengið vel. Björgvin Þór Harðarson er með stórfellda ræktun í Gunnarsholti fyrir svínabú fjölskyldunnar en einnig til manneldis. Hann gerir í ár tilraunir með rækun á sinnepsplöntum og bóndabaunum.
Sinnepsræktunin er samstarfsverkefni Björgvins og hjóna í Fljótshlíð. Þau eru með býflugnabú og hafa gert tilraunir með ræktun á sinnepi.
„Frá því að við hófum smábúskap með býflugur á árinu 2013 höfum við verið að velta fyrir okkur heppilegum plöntum til að rækta fyrir þær. Áttuðum okkur á því að sinnep væri planta sem blómstraði vel og mikið og gæfi mikinn blómasafa. Við fórum að leika okkur með þetta og gerðum litlar tilraunir sem komu ágætlega út og býflugurnar sóttu í blómin,“ segir Þórður Freyr Sigurðsson viðskiptafræðingur sem býr ásamt konu sinni, Margréti Jónu Ísólfsdóttur, á Uppsölum 2 í Fljótshlíð. Þau eru bæði í annarri vinnu og búskapurinn því aðeins áhugamál.
Þau ákváðu að taka þetta skrefinu lengra í ár og fá atvinnumann í kornrækt til að sjá um ræktunina. Markmiðið er að fá fullan þroska í sinnepsfræið og nota það til að framleiða sinnep, hunangssinnep þegar afurðum býflugnanna hefur verið bætt við, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.