„Skrítið og svekkjandi“

Guðmundur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars\TBWA.
Guðmundur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars\TBWA. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var óþægilega nálægt,“ segir Guðmund­ur Hrafn Páls­son, fram­kvæmda­stjóri Pip­ars/​TBWA og formaður Sambands ís­lenskra aug­lýs­inga­stofa (SÍA). Hann segir ekki samræmi á milli orða og gjörða stjórnvalda en tillaga alþjóðlegu auglýsingastofunnar M&C Saatchi hlaut hæstu einkunn valnefndar fyrir markaðsverk­efnið „Ísland — sam­an í sókn.“

Munurinn á tveimur efstu auglýsingastofum sem sóttust eftir verkinu var aðeins 0,82% en Pipar/TBWA hafnaði í öðru sæti. 

Um er að ræða markaðs- og kynn­ing­ar­verk­efni fyr­ir áfangastaðinn Ísland á völd­um er­lend­um mörkuðum í því skyni að styrkja ímynd Íslands, auka eft­ir­spurn og viðhalda sam­keppn­is­stöðu ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu. Alls verður 1.500 millj­ón­um króna varið í verk­efnið en gert er ráð fyr­ir að stærsti hluti þess fari í birt­ing­ar á er­lend­um mörkuðum.

Guðmundur segir það vissulega vekja athygli að M&C Saatchi viðurkenndi bókhaldsmisferli í lok síðasta árs en breska fjármálaeftirlitið hefur hafið rannsókn á fyrirtækinu.

„Ég vissi ekki af þessu fyrr en ég sá þetta í fjölmiðlum í morgun. Maður gerir ráð fyrir því að þetta verði skoðað, þótt ég þekki það mál ekkert,“ segir Guðmundur.

Hann segir að fyrir utan þann vinkil hljóti það að vekja athygli að á tímum þar sem stjórnvöld séu með verkefni um að velja eigi íslenskt skuli jafnstórt verkefni og raun ber vitni fara úr landi. „Sérstaklega af því að það munar ekki nema 0,82%,“ segir Guðmundur og bætir við að verkefni hér á landi skapi tekjur og vinnu fyrir Íslendinga:

„Þetta er skrítið og svekkjandi.“

Spurður hvort hann telji að það sé möguleiki á því að valinu verði breytt vegna fregna af misferli M&C Saatchi segir Guðmundur það ákaflega langsótt. 

„Það er kæruferli og tíminn er tíu dagar. Við erum að skoða okkar mál og ég geri ráð fyrir því að Ríkiskaup skoði þessi málaferli úti betur.“

Heldurðu að valnefndin hafi ekki kynnt sér málið nægjanlega vel?

„Í ferlinu þarf að fylla út ákveðnar upplýsingar sem tengjast einmitt svona málum. Ég geri ráð fyrir að þeir hafi fyllt það út og því hafi verið tekið sem fullnægjandi gögnum. Það er greinilega ekki tími til að sinna einhverjum rannsóknum á þessum stutta tíma.“

Guðmundur segir að Pipar/TBWA muni fylgjast með næstu daga og væntir þess að fá niðurstöðu valnefndar til sín, enda ákaflega mjótt á mununum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert