Samningafundi Flugfreyjufélags Íslands og samninganefndar Icelandair lauk klukkan tólf hjá ríkissáttasemjara án þess að árangur næðist.
Það var Icelandair sem sleit fundinum eftir aðeins klukkutíma. Enginn nýr samningafundur hefur verið boðaður.
„Viðsemjendur okkar sjá sér ekki fært að svo stöddu að ræða á þeim grundvelli sem tilboðið okkar var lagt fram á,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi formaður FFÍ, og á við tilboð sem flugfreyjur lögðu fram 4. maí.
„Við erum með ríkan samningsvilja og erum tilbúin að mæta ef þetta breytist eitthvað.“
Á samningafundi í gærkvöldi sem lauk um eittleytið var farið yfir tilboð Icelandair frá 10. maí og því formlega hafnað af flugfreyjum. Áður hafði það verið lagt fyrir félagsmenn.
„Í dag var okkur tilkynnt að þau gætu ekki rætt við okkur að svo stöddu á þessum grundvelli,“ segir Guðlaug.
Næsta skref hjá FFÍ er að fara yfir þau atriði með félagsmönnum sem félagið var tilbúið að byggja á í samningaviðræðunum í dag.