Þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda sem kynntar voru í dag telur stúdentahreyfingin að eftir standi að tryggja stúdentum fjárhagslegt öryggisnet. Stúdentar greiði í atvinnuleysistryggingasjóð en fái síðan engin réttindi úr honum. Það sé óréttlæti sem þurfi að leiðrétta.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra kynntu í dag áform stjórnvalda um að skapa að minnsta kosti 3.400 sumarstörf fyrir námsmenn 18 ára og eldri.
Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og Sigrún Jónsdóttir, forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta, sögðu í samtali við mbl.is að margt væri ánægjulegt við þessar aðgerðir. Eftir standi þó að tryggja stúdentum fjárhagslegt öryggisnet.
„Það er alla vega gott að aðgerðirnar séu komnar út en við teljum samt sem áður að það hafi ekki verið komið til móts við okkar aðalkröfu, sem er réttur stúdenta til atvinnuleysisbóta, og við höfum í rauninni fengið talsverða mótstöðu við henni,“ segir Sigrún.
„Okkar helstu rök eru þau að það þurfi að veita stúdentum fjárhagslegt öryggi strax. Ráðningatímabilið í þessum sumarstörfum á að hefjast 1. júní, en við viljum vekja athygli á því að sumarið er í rauninni hafið hjá stúdentum. Það þarf einfaldlega að grípa þessa stúdenta sem fyrst.“
Jóna bendir á að mikill meirihluti stúdenta greiði af launum sínum atvinnutryggingagjald, en að stúdentar eigi þó ekki rétt á atvinnuleysisbótum líkt og annað vinnandi fólk.
„Það er lögð mikil áhersla á virkni hjá stúdentum en auðvitað er það þannig að stúdentar eru nú þegar virkir á vinnumarkaði. 70% stúdenta eru í vinnu samhliða námi og 90% vinna síðan á sumrin í fullu starfi. Þessir stúdentar greiða af sínum launum atvinnutryggingagjald sem rennur í atvinnuleysistryggingasjóð, en eiga síðan engan rétt á greiðslu úr sjóðnum. Þetta er eitthvað sem við teljum að þurfi að leiðrétta. Þetta var ekki alltaf svona, áratugum saman nutu stúdentar verndar atvinnuleysistryggingakerfisins og við teljum að það þurfi að leiðrétta þetta til baka,“ segir Jóna.
„Þú greiðir í sjóðinn og færð síðan engin réttindi úr honum, það er bara óréttlæti sem þarf að leiðrétta.“
Könnun SHÍ frá því í byrjun apríl benti til þess að um 7.000 stúdentar hafi þá ekki verið komnir með sumarstarf. Síðan þá hefur verið mikið um fjöldauppsagnir og líkur leiddar að því að bæst hafi í hópinn. Þau 3.400 störf sem stjórnvöld hafi skapað séu því einfaldlega ekki nógu mörg til þess að tryggja fjárhagslegt öryggi námsmanna í sumar.
„Við teljum það ekki vera þannig að stúdentar muni velja að vera á atvinnuleysisbótum. Það eru auðvitað skilyrði fyrir því hverjir fái atvinnuleysisbætur, þeir þurfa að vera í virkri atvinnuleit, þeir þurfa að taka þeim störfum sem þeim bjóðast. Þau skilyrði myndu eiga við námsmenn rétt eins og aðra landsmenn. Þetta kerfi á bara að vera sama öryggisnet fyrir allt vinnandi fólk, líka vinnandi stúdenta,“ segir Jóna.
„Þetta eru náttúrulega óvenjulegar aðstæður, hin höfuðáhersla okkar hefur verið á sköpun sumarstarfa og þetta er auðvitað í takti við það. En áhyggjur okkar eru að störfin verði einfaldlega ekki nógu mörg og þess vegna muni einhver hluti stúdenta falla á milli skips og bryggju,“ bætir Sigrún við.
Þá bendir Jóna á að ef hægt verði að skapa nægilega mörg sumarstörf fyrir námsmenn, muni námsmenn ekki þurfa að nýta sér atvinnuleysisbætur. Það eigi því ekkert að vera því til fyrirstöðu að viðurkenna rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta.
„Ef það komast allir í sumarstörf sjáum við ekki af hverju stúdentar ættu ekki að eiga rétt til atvinnuleysisbóta, ef það mun ekki kosta neitt. Það er okkar tilfinning að það sé fjármagnið sem sé helsta hindrunin fyrir því að við getum tryggt öryggi námsmanna til jafns við annað vinnandi fólk og ef það er þannig að það er nógu mikið af störfum ætti þessi réttur algjörlega að standa fólki til boða því það er auðvitað þannig að þú þurfir að taka þeim störfum sem þér bjóðast þegar þú ert á atvinnuleysisbótum. Þetta er bara spurning um öryggisnet,“ segir Jóna.
Jóna og Sigrún segjast vera ánægðar með þær umbætur sem verða á úthlutunarreglum LÍN í sumar. Þá telja þær heimild á greiðsludreifingu skrásetningargjalda við opinbera háskóla vera skref í rétta átt.
„Varðandi skrásetningargjöldin var það krafa stúdenta að fella þau niður til þess að ryðja úr vegi fjárhagslegum hindrunum á þessum tímum. Þetta er skref í rétta átt og léttir vonandi undir með þeim sem ná að afla sér nægilega tekna til þess að greiða gjöldin. En við teljum þetta eiga að vera fyrsta skref og teljum í rauninni að það eigi eftir að mæta kröfu okkar um niðurfellingu gjaldanna og hún stendur óhögguð eins og er,“ segir Jóna.
„Varðandi LÍN þá kom þessi krafa frá stúdentum um að úthlutunarreglurnar yrðu endurskoðaðar, þá sérstaklega þessi klausa um sumarlán. Það er náttúrulega bara frábært að sjá að þetta hafi náð í gegn, sérstaklega í ljósi þess að hefði þessu ekki verið breytt hefði sumarnám einfaldlega ekki verið ákjósanlegur kostur fyrir stúdenta. Við viljum líka benda á það, í sambandi við sumarnámið, að ástæða þess að stúdentar hafi ekki verið sérstaklega spenntir fyrir þessum kosti er einfaldlega sú að framfærslan þín veltur á hversu margar einingar þú tekur. Þetta er ekki það trygga fjárhagslega öryggi sem við höfum verið að benda á,“ segir Sigrún.
Þá bætir Jóna við að stúdentar séu upp til hópa ekki spenntir fyrir því að framfleyta sér á lánum og skuldsetja sig enn frekar.
„Kannanir stúdentaráðs hafa einnig sýnt fram á að áhuginn er ekki mikill fyrir því að framfleyta sér á sumarnámslánum. En ég tel að þrýstingur stúdenta skipti miklu máli þegar kemur að því að velja hvaða aðgerðir eigi að ráðast í og að það sé verið að ráðast í aðgerðir hér yfirhöfuð. Þó að við séum ekki að fá allt sem við erum að óska eftir hafa fundir, samráð og þrýstingur frá okkur og hávær rödd stúdenta skipt máli.“