Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að sveitarstjórnin sé ekki svekkt yfir því að hugsanleg áform um uppbyggingu Atlantshafsbandalagsins í Helguvíkurhöfn hafi strandað á andstöðu Vinstri grænna við málið.
„Við getum ekki verið fúl yfir innanhússmálum hjá ríkisstjórninni,“ segir Friðjón. Umræðan hafi aldrei farið formlega í gang hjá sveitarfélaginu, enda hefði það þurft að fá það erindi inn á borð til sín frá ríkisstjórn.
„Við hefðum hins vegar glaðir viljað taka þátt í umræðu um uppbyggingu á þessu svæði, vegna þess að við horfum auðvitað til Norðurslóða og verkefna tengdum því. Síðan hefur Reykjavíkurborg talað um að herskipin þurfi að fara frá Reykjavík og þau geta þá allt eins lagt hér hjá okkur. Við erum alltaf til í þessa umræðu,“ segir Friðjón.
Kórónuveirufaraldur hefur valdið einkanlega þungum búsifjum á Suðurnesjum og atvinnuleysi nær nýjum hæðum. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði til að ráðist yrði í framkvæmdir í Helguvík, sem hefðu kostað um 1,2 milljarða, sem NATO hefði greitt á móti íslenskum stjórnvöldum. Vinstri græn lögðust gegn þeirri hugmynd, eins og sagt var frá í Morgunblaðinu í dag.
„Við erum auðvitað búin að kalla eftir stuðningi ríkisins með uppbyggingu í Helguvík í mörg ár og erum á eftir öðrum landshlutum í því,“ segir Friðjón. „Við vildum koma því á framfæri að við værum hrifnir af allri uppbyggingu en við gætum ekki rætt þetta hjá okkur vegna þess að við höfum ekki fengið neitt formlegt um þetta.“
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar, gagnrýndi þennan áhuga sveitarstjórnarinnar í samtali við Morgunblaðið fyrir tæpum mánuði: „Mér finnst því sérstakt að kjörnir fulltrúar á Suðurnesjum séu að leita til NATO vegna uppbyggingar á innviðum. Eins og við vitum eru uppbygging og viðhald á vegum Atlantshafsbandalagsins þegar umdeild mál, þannig að ef við værum að fara í hernaðartengda uppbyggingu á hafnarsvæðum væri það eitthvað sem þyrfti mun ítarlegri umræðu við, enda um þjóðaröryggismál að ræða.“