Ríkið eignist hlut fari stuðningur yfir 100 milljónir

Drífa Snædal kynnti í dag framtíðarsýn Alþýðusambands Íslands um viðbrögð …
Drífa Snædal kynnti í dag framtíðarsýn Alþýðusambands Íslands um viðbrögð stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ASÍ leggur til að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar úr 289.510 kr. á mánuði í 335.000 kr. þegar í stað og að greiðslutímabil tekjutengdra bóta verði lengt úr þremur mánuðum í sex. Þá krefst ASÍ þess að námsmönnum séu tryggðar atvinnuleysisbætur fái þeir ekki sumarstörf. 

Einnig er lagt til að nemi opinber stuðningur 100 milljónum króna eða meira eignist ríkið hlut í fyrirtækinu og sömuleiðis að laun æðstu stjórnenda innan viðkomandi fyrirtækis séu ekki hærri en þreföld meðallaun miðað við meðaltal heildarlauna fullvinnandi launafólks skv. Hagstofunni.

Þessar kröfur eru á meðal þeirra sem Alþýðusamband Íslands hefur lagt sem „framtíðarsýn um uppbyggingu Íslands“ í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Framtíðarsýnin á að skapa atvinnu á tilteknum sviðum sem aftur eigi að tryggja sjálfbært atvinnulíf til frambúðar. 

„Við vitum nú þegar að hagkerfið og vinnumarkaðurinn sem tekur við eftir Covid-kreppuna mun ekki vera eins og áður. Þetta er því ekki endurreisn í eiginlegum skilningi, heldur uppbygging til framtíðar. ASÍ stígur nú fram til að leiða stefnu fyrir þá uppbyggingu og við ætlum okkur að tryggja að hún verði í þágu almennings, ekki sérhagsmuna,“ segir Drífa Snædal.

„Á krepputímum keppast sérhagsmunaöfl við að bæta stöðu sína. Frá síðustu kreppu hafa hinir ríku orðið ríkari, bæði á alþjóðavísu og á Íslandi. Nú er mál að linni; tímabært er að snúa strax af þessari braut og tryggja að aðgerðir vegna kreppunnar stuðli að jöfnuði og almennum lífsgæðum.“

Ef stuðningur er 100m+ á ríkið að eignast hlut í fyrirtækinu

ASÍ leggur til bráðabirgðaaðgerðir stjórnvalda miði að því að tryggja afkomuöryggi heimilanna og að í því felist, ásamt því sem hér stendur efst, að hærri húsaleigubætur til þeirra sem hafa orðið fyrir tekjufalli og geta ekki staðið við skuldbindingar sínar í leigu.

Á meðal þess sem lagt er til er að grunnatvinnuleysisbætur …
Á meðal þess sem lagt er til er að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar úr 289.510 kr. á mánuði í 335.000 kr. þegar í stað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá vill ASÍ að skilyrði fyrir stuðingi stjórnvalda við fyrirtæki séu á þá leið að fjárhagsvandi þeirra sé vegna COVID-19-kreppunnar, að fyrirtæki fylgi kjarasamningum, stundi ekki launaþjófnað og félagsleg undirboð og kennitöluflakk sé stöðvað.

Skráning yfir raunverulega eigendur eigi þá að liggja fyrir og fyrirtæki eða eigendur þeirra notist ekki við skattaskjól. Sem fyrr segir leggur ASÍ einnig til að nemi opinber stuðningur 100 milljónum króna eða meira eignist ríkið hlut í viðkomandi fyrirtæki til samræmis við framlag sitt.

Erfiðisvinnudagur styttur

Til framtíðar leggur ASÍ til að flýta framkvæmdum, innviðauppbyggingu fyrir ferðaþjónustu, fjölga almennum íbúðum og halda áfram átakinu „Allir vinna“. Í nýsköpun og tækni verði tvöföldun á stuðningi, samvinnufélög styrkt og grænn nýsköpunarsjóður sveitarfélaganna.

Í matvælaframleiðslu eigi raforka að vera niðurgreidd og að beinir styrkir fari til ylræktar, skattafslættir til smærri matvælaframleiðenda, efling fiskmarkaða og stofnun landbúnaðarklasa.

ASÍ vill þá fleiri græn störf; almenningssamgöngur, rafvæðing bílaflotans, öflugari votlendissjóð og stafræna innviði. Loks eigi vinnudagurinn í erfiðisvinnu að vera styttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert