Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is. Fundinum, sem fram fór í gær milli samninganefnda Icelandair og FFÍ, lauk án árangurs.
Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í gærkvöldi sagði að viðræður síðustu vikna hefðu ekki enn borið árangur þrátt fyrir góðan vilja beggja vegna borðsins og að þau tilboð sem lögð höfðu verið fram að hálfu Icelandair hefðu verið til þess fallin að auka samkeppnishæfni félagsins en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur starfsfólks og verða við óskum um sveigjanleika í starfi og val um vinnuframlag, t.d. með möguleika á hlutastörfum.
„Það eru fjölmargir þættir sem verða að ganga upp til að endurfjármögnun Icelandair Group gangi eftir. Einn af þeim eru langtímasamningar við flugstéttir. Sá samningur sem Icelandair bauð flugfreyjum og flugþjónum hefði hvort í senn tryggt samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma og starfsmönnum félagsins áfram góð kjör og gott starfsumhverfi. Áhafnir Icelandair eiga mjög stóran þátt í því að gera Icelandair að því öfluga fyrirtæki sem það er. Það er því áhyggjuefni að ekki verði lengra komist í þessum viðræðunum við Flugfreyjufélag Íslands,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynningunni.
Ekki er víst að flugfreyjur taki undir það sem segir um samningstilboð Icelandair í tilkynningunni en þeim þykir lítið til þess tilboðs koma og hafa lagt fram sitt eigið tilboð sem samninganefnd flugfélagsins taldi sig ekki geta gengið að.
Bogi Nils fór síðan fram hjá samninganefnd FFÍ og sendi bréf beint á flugfreyjur í gær þar sem hann sagði tímann vera „að renna frá okkur“. Hann hafi gert það því hann hafi viljað veita flugfreyjum upplýsingar um samningstilboð Icelandair milliliðalaust því að Bogi og Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ, eru ósammála um hvað felist raunverulega í tilboði Icelandair. Guðlaug telur að það feli í sér allt að 40% kjaraskerðingu en því er Bogi ósammála.
Bréfaskrif Boga voru tekin óstinnt upp og það sagt verulegt og „grafalvarlegt inngrip í kjarasamningsviðræður í besta falli“. Kvöldið áður hafði samninganefnd FFÍ mótmælt því á fundi hjá ríkissáttasemjara að Icelandair gripi á þennan hátt inn í kjaraviðræður og gekkst samninganefnd Icelandair við því.