Ísland upp um fjögur sæti á Regnbogakortinu

Evrópusamtök hinsegin fólks (ILGA-Europe) birta Regnbogakortið árlega í kringum alþjóðlegan …
Evrópusamtök hinsegin fólks (ILGA-Europe) birta Regnbogakortið árlega í kringum alþjóðlegan baráttudag hinsegin fólks sem er 17. maí. mbl.is/Ómar

Ísland hækkar um fjögur sæti á milli ára á Regnbogakortinu, úttekt á stöðu og réttindum hinsegin fólks í Evrópu. Ísland er nú komið í 14. sæti en var í 18. sæti í fyrra (2019).

Evrópusamtök hinsegin fólks (ILGA-Europe) birta Regnbogakortið árlega í kringum alþjóðlegan baráttudag hinsegin fólks sem er 17. maí, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Frá því síðasta Regnbogakort var birt hefur Alþingi samþykkt frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um kynrænt sjálfræði. Með lögunum er komið til móts við ný og breytt viðhorf til opinberrar skráningar kyns og stuðlað að réttarbótum fyrir trans- og intersex-fólk með því að staðfesta rétt einstaklinga til að breyta kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun og án þess að þurfa að sæta skilyrðum um sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð.

Samþykkt framangreindra laga hefur þýtt verulegar réttarbætur til handa trans- og intersex-fólki hér á landi og er Ísland það Norðurlanda sem hefur hækkað mest frá birtingu kortsins 2019. Danmörk (4. sæti) og Noregur (5. sæti) hafa hækkað um eitt sæti frá því 2019, Finnland (8. sæti) hefur fallið niður um fjögur sæti og Svíþjóð (10. sæti) stendur í stað.

Af 49 þjóðum trónir Malta áfram efst á listanum og Aserbaídsjan er áfram neðst á listanum. Ungverjaland (27. sæti) er það ríki sem hefur fallið mest frá útgáfu síðasta korts eða um átta sæti og Norður-Makedónía (33. sæti) er það ríki sem hefur færst mest upp listann, eða um 12 sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka