Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur fundað stíft með forsvarsfólki Icelandair vegna kjarasamninga flugmanna í dag. Þetta staðfestir Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA, í samtali við mbl.is.
Jón Þór segir góðan gang í viðræðunum og að þær séu á sama grundvelli og áður.
„Það er enn fundað,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is þegar slegið var á þráðinn til hans nú á sjöunda tímanum. „Þetta er bara í góðum farvegi. Menn sitja og eru að ræða hlutina og vonandi hreyfist þetta.“
Aðspurður hvort til standi að funda langt fram á kvöld segir Jón Þór að menn ætli að gefa sér allan þann tíma í viðræður sem þurfi. „Verkefnið er mikilvægt og við ætlum okkur að ná saman. Það væri best ef það gengi saman í dag.“
„Miði er alltaf möguleiki,“ segir Jón Þór aðspurður hvort hann telji mögulegt að samningsaðilar nái saman í dag. „Ég er bjartsýnn á þetta.“