Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hefur samþykkt breytingar á Náðhúsinu í Nauthólsvík frá áður útgefnum aðaluppdráttum Arkibúllunnar, sem samþykktir voru árið 2018. Jafnframt breytist hlutverk Náðhússins. Þar verður opið skrifstofu- og kynningarrými í stað fyrirlestrarrýmis.
Náðhúsið, sem stendur við Nauthólsveg 100, var áður hluti af þyrpingu húsa sem standa norðan við Ylströndina í Nauthólsvík. Frægasta húsið er bragginn sem Reykjavíkurborg endurbyggði og fór mörg hundruð milljónir fram úr áætlun.
Ákveðið var að fresta endurbyggingu Náðhússins eftir að endurbyggingu braggans lauk. Húsið var áður hluti af byggingum sem hýstu Hótel Winston (síðar Hótel Ritz). Háskólinn í Reykjavík hefur þessar byggingar til umráða, þar á meðal braggann, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.