Vilja snúa umferð aftur við á Laugavegi

Ekið eftir Laugavegi.
Ekið eftir Laugavegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu á fundi skipulagsráðs í gær um að akstursstefna niður Laugaveg í miðbæ Reykjavíkur yrði samræmd, svo alls staðar yrði keyrt „niður“ hann en ekki í eina átt á einum stað en aðra á öðrum.

Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokks, segir að upprunalega stefnubreytingin hafi verið tilraun sem hafi ekki gengið upp. 

„Það var prófað að fara þessa leið og það hafði greinilega neikvæð áhrif. Miðborgin þarf á öllu að halda núna og eitt af því er ekki að fara hér fram og aftur blindgötuna, eins og Megas sagði,“ segir Eyþór við mbl.is. 

Vilja auðvelda fólki að versla við Laugaveg

Eyþór segir tveggja stefnu stefnuna hafa skapað rugling og fælt fólk frá verslunargötunni. Nú sé lag að breyta þessu aftur til fyrra horfs, sem gæti orðið til bóta fyrir verslanir við götuna sem hafa sumar orðið illa úti í kórónuveirufaraldrinum. Aðstæður hafi í þokkabót verið erfiðar fyrir faraldurinn.

Eyþór Arnalds.
Eyþór Arnalds. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Með þessu viljum við bara auðvelda Íslendingum að koma og versla í miðbænum,“ segir Eyþór. Tillagan var lögð fram í gær og Eyþór vonar að hún hljóti hljómgrunn hjá meirihlutanum, sem hann hefur þó ekki miklar væntingar til.

Nýja akstursstefnan á Laugavegi varð ársgömul nú um mánaðamótin. Þá var því breytt á þá leið að þeim sem ætti leið upp Klapparstíg og inn á Laugaveg var framvegis beint til vinstri en ekki hægri og þannig gekk umferðin austur upp götuna fram að Frakkastíg. Frá Snorrabraut og niður að Frakkastíg var hins vegar áfram umferð niður götuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert