„Allt of gaman“ á Prikinu — lokað til 25. maí

Sveiflan hefur verið nokkur á Prikinu undanfarið. Nú á að …
Sveiflan hefur verið nokkur á Prikinu undanfarið. Nú á að loka og 25. maí opnar síðan nýtt og endurbætt Prik, með leikjasal á efri hæð úti í porti. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Skemmtistaðurinn, barinn og veitingastaðurinn Prikið verður með lokað þar til 25. maí, þegar skemmtistaðir og barir fá að opna á ný. Prikinu bárust tilmæli frá lögreglunni um að loka ætti staðnum fram að þeim tíma, þar sem ekki væri heimilt að stunda skemmtistaðarekstur í augnablikinu.

„Ætli það sé ekki bara búið að vera allt of gaman hjá okkur,“ segir Geoffrey Huntingdon-Williams, rekstrarstjóri og meðeigandi, við mbl.is. „Nei, við ákváðum bara að nýta tækifærið og loka í stutta stund. Það bárust boð frá lögreglunni um að loka staðnum til 25. maí og þó að við hefðum getað haldið því til streitu að við séum veitingastaður, sem við erum, þá ákváðum við að vera ekki að flækja málin og nota frekar tímann í langþráðar framkvæmdir.“

Síðustu vikur hafa aðeins þeir vínveitingastaðir fengið að hafa opið sem einnig hafa veitingaleyfi og er Prikið einn af þeim. Það hefur því oft verið nokkur sveifla á kvöldin og vín að sönnu veitt, en Geoffrey segir áhersluna hafa verið á veitingastaðinn.

Eftir að sóttvarnayfirvöld sættu gagnrýni fyrir að sumir mættu veita vín og aðrir ekki virðist lögreglan vera að leitast við að stöðva starfsemina hjá skemmtistaðalegum veitingastöðum, ef svo má að orði komast. 

Kærkomið að komast loks í framkvæmdir

Prikið hefur verið opið á hverjum degi í þrjú ár og opið er frá 8 á morgnana og til 4.30 á næturnar um helgar. Það hefur því ekki gefist mikið svigrúm til framkvæmda og að sögn Geoffrey er sérstaklega kærkomið að fá það nú, þegar stefnan er að koma leikjasalnum Fredda fyrir á efri hæðinni í portinu.

„Okkur veitir ekki af smá öndun núna rétt í aðdraganda heildaropnunarinnar. Við notum tímann til að koma spilasalnum fyrir uppi og gera allan staðinn kláran fyrir opnunina og stuð í sumar,“ segir Geoffrey. Þarnæsta mánudag, 25. maí, opnar staðurinn í allri sinni dýrð og þá verður áfram opið til 23.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert