„Þetta er stuðningur við fyrirtæki sem þurfa að standa í skilum með uppsagnarfrest starfsmanna og með þessu úrræði tryggjum við að slík fyrirtæki munu að fullu geta staðið við launagreiðslur til sinna starfsmanna, staðið skil á lífeyrisgreiðslum og greitt út orlof,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is um nýtt úrræði fyrir fyrirtæki sem hafa orðið fyrir tekjufalli.
Bjarni segir að með úrræðinu sé verið að verja stöðu launþega fyrirtækja sem hafa tapað öllum sínum tekjum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Úrræðið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun og fer nú til þingflokka til samþykktar. Ef þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna taka vel í úrræðið býst Bjarni við því að það verði lagt fram sem frumvarp á Alþingi í dag.
„Launakostnaður fyrirtækja sem hafa orðið fyrir meira en 75% tekjufalli er mjög íþyngjandi. Sumar þjóðir hafa farið þá leið að heimila fyrirtækjum að setja starfsmenn á bótakerfið ef tekjuhrun hefur orðið. Við erum ekki að gera það hér heldur að gera fyrirtækjum kleift að horfast í augu við þann veruleika að þetta tekjuhrun kippir grundvellinum undan rekstrinum og með þessu þá tryggjum við að allir launþegar slíkra fyrirtækja fái réttindi sín að fullu gerð upp,“ útskýrir Bjarni.
Spurður hvort hann hafi kynnt sér hugmyndir Alþýðusambands Íslands um „framtíðarsýn um uppbyggingu Íslands“ í kjölfar kórónuveirufaraldursins segist hann lítið hafa gert af því en það sem hann hafi kynnt sér hljómi sem „einhvers konar ríkisvæðing hluta atvinnulífsins“ í hans eyru og telur hann ekki rétt að stíga það skref.
Þá kom Bjarni inn á það að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, væri með í smíðum frumvarp um hert skilyrði hlutabótaleiðarinnar en þau skilyrði væru í „þeim anda“ sem ríkisstjórnin hefur boðað.
Bjarni sagðist ánægður með að samningar hafi náðst milli Icelandair og Félags íslenskra atvinnuflugmanna og að það væri mikilvægt skref í því „verkefni sem er þó enn óklárað hjá Icelandair“. Hann sagðist hafa trú á að áætlanir Icelandair um fjármögnun næðu fram að ganga en staðan yrði mjög erfið og mjög alvarleg ef það tekst ekki.
„Þess vegna hefur ríkisstjórnin viljað styðja félagið í þessum tilraunum til þess að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu og við skulum hafa trú á því að það geti gengið því ég held að framtíð ferðaþjónustunnar sé björt,“ bætti hann við.