Mótmæltu arðgreiðslu Faxaflóahafna

Félagið Faxaflóahafnir var stofnað árið 2005 og sinnir fjórum höfnum …
Félagið Faxaflóahafnir var stofnað árið 2005 og sinnir fjórum höfnum á svæðinu.

Formaður Faxaflóahafna lagði til á stjórnarfundi í morgun að tillaga til aðalfundar um greiðslu arðs til eigenda verði 50% af reglulegum hagnaði ársins 2019, eða alls 431,6 milljónir króna.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Örn Þórðarson og Marta Guðjónsdóttir, lögðu fram bókun um málið og sögðust vera mótfallnir greiðslunni, að því er kemur fram í fundargerð

„Breyttar aðstæður í rekstri Faxaflóahafna kalla á varfærni í rekstri, fyrirséð er tekjutap og samdráttur á árinu 2020. Til að geta tekist á við þær aðstæður er óskynsamlegt að taka út úr félaginu 431 milljónir króna, slíkt hefur áhrif á fjárhagsstyrk á yfirstandandi ári,“ segir í bókuninni.

„Ábyrgð hafnarstjórnar er að tryggja rekstur hafnarinnar. Eðlilegt væri í ljósi aðstæðna að breyta arðgreiðslustefnu Faxaflóahafna og taka þá ákvörðun á eigendavettvangi. Í því ljósi greiða fulltrúarnir atkvæði gegn þessari tillögu í hafnarstjórn.“

Aðrir í stjórninni færðu til bókar að fjárhagsstaða Faxaflóahafna sé afar sterk og að fyrirtækið búi að háu eiginfjárhlutfalli, skuldastaðan sé létt og skuldir hafi farið lækkandi.

„Þrátt fyrir skertar tekjur til skemmri tíma vegna COVID er rekstrarstaða fyrirtækisins góð og ekki ástæða til þess að hverfa frá þeirri arðgreiðslustefnu sem ráðið hefur för á undanförnum árum,“ segir í bókuninni.

Tillaga formannsins var samþykkt með sex atkvæðum gegn tveimur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert