Heildarkostnaður Ísafjarðarbæjar vegna sjóflóðanna sem féllu á Flateyri 14. janúar síðastliðinn nálgast nú 39 millj. kr. og þar af er greiddur kostnaður liðlega 13 millj. króna.
Þetta kom fram á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í síðustu viku en forsætisráðuneytið hafði óskað þessara upplýsinga. Mestur greiddur kostnaður féll til vegna viðgerða, vélavinnu, starfa björgunarliðs, sálgæslu og annars sem gera þurfti fyrst eftir flóðið. Búist er svo við að tæplega 26 millj. kr. kostnaður bætist við á næstunni. Þar eru hreinsunarstörf og endurbætur á hafnarsvæðinu stærsti liðurinn.
Sveitarfélagið óskaði eftir því að almenningur og fulltrúar fyrirtækja sendu inn upplýsingar um búsifjar sem viðkomandi kynnu að hafa orðið fyrir af völdum hamfaranna. Hefur verið óskað eftir stuðningi ríkisins vegna þessa kostnaðar og annars sem þarf.