Ísland er hið fullkomna afdrep frá kórónuveirunni. Því heldur bandaríski miðillinn Bloomberg í það minnsta fram, en áform stjórnvalda um að opna landamæri á ný fyrir ferðafólki í næsta mánuði eru til umfjöllunar hjá miðlinum í dag.
Aðgerðir stjórnvalda hér á landi vegna veirunnar eru þar raktar og sagt að þjóðin hafi verið tilbúin með aðgerðaáætlun vegna faraldurs og, það sem meira er, haldið sig við hana. Umfangsmikil sýnataka frá því áður en fyrsta tilfelli greindist, öflug smitrakning og sóttkví hafi orðið til þess að landinu tókst að sleppa við íþyngjandi aðgerðir á borð við útgöngubann án þess að leyfa veirunni að leika lausum hala. Útkoman sé einungis tíu dauðsföll eða 28 á hverja milljón íbúa. Um tíund af dauðsföllum í Bandaríkjunum, miðað við höfðatölu.
Í stað þess að hefja viðræður við örugg ríki um myndun einhvers konar ferðasvæðis (e. travel bubble) þar sem íbúar viðkomandi ríkja geta ferðast innan nágrannaríkja hafi Íslendingar ákveðið að hleypa öllum ferðamönnum hingað til lands gegn því að undirgangast sýnatöku eða fara í sóttkví. Þetta þykir Bloomberg-liðum skynsamleg ráðstöfun og segja léttvægt að þurfa að hala niður smitrakningarappinu Rakning C-19 í ljósi öflugrar persónuverndarlöggjafar hér á landi.
Þótt ekki sé víst hve marga ferðamenn Íslendingum muni takast að laða til landsins í miðjum heimsfaraldri sé tilraunin engu að síður góðra gjalda verð í landi þar sem ferðaþjónusta er jafnsnar þáttur í efnahagskerfinu og hér er raunin.