Mikilvægt að finna þessi börn

AFP

Um 700 börn og unglingar á grunnskólaaldri eiga í slöku sambandi við aðra. Þessi ungmenni eru verulega illa stödd hvað varðar félagslega stöðu, heilsu, líðan og framtíðarhorfur og því mikilvægt að finna þau og aðstoða segir í nýrri skýrslu sem Ársæll Arnarsson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur unnið.

Embætti landlæknis hefur gefið út skýrsluna Félagstengsl íslenskra ungmenna sem unnin var af Ársæli í samvinnu við verkefnastjóra á lýðheilsusviði embættis landlæknis. Skýrslan er unnin úr íslenskum gögnum alþjóðlegu rannsóknarinnar HBSC sem varðar heilsu og líðan skólanema. Markmið rannsóknarinnar er að kanna tengsl barna í 6., 8. og 10. bekk við foreldra sína, skóla og vini, ásamt ýmsum þáttum er varða heilsu þeirra og líðan.

HBSC er fjölþjóðleg rannsókn, þar sem 11, 13 og 15 ára ungmenni eru spurð um ýmsa þætti varðandi heilsu, líðan og félagslegar aðstæður. Hér á landi gengur rannsóknin undir heitinu Heilsa og lífskjör skólanema og hefur verið lögð fyrir á fjögurra ára fresti eins og í hinum þátttökulöndunum frá árinu 2006.

Niðurstöður leiddu í ljós að flest íslensk ungmenni eru með góð tengsl við foreldra, vini og skóla. Þau sem á annað borð eru með einhver slök tengsl hafa þau aðeins á einu sviði og þá oftast við vini. Afar sjaldgæft er að börn og unglingar hafi slök tengsl á öllum þremur sviðunum eða 3% af heildarfjölda.

Ársæll Már Arnarsson, prófessor á menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Ársæll Már Arnarsson, prófessor á menntavísindasviði Háskóla Íslands. mbl.is/Hari

Ef miðað er við fjölda grunnskólanema á hverjum tíma má þó gera ráð fyrir að þessi staða eigi við um 700 börn og unglinga í þessum aldurshópi. 

Samskipti við foreldra höfðu mest áhrif á líðan ungmenna, en tengsl við skóla mest áhrif á áhættuhegðun. Tengsl við vini höfðu vissulega áhrif á líðan, en mun minni en áhrif foreldra og áhugavert var að sjá að tengsl við vini höfðu engin marktæk áhrif á áhættuhegðun. Þau höfðu hins vegar mest áhrif á einelti. Ungmenni með sterk vinatengsl voru mun ólíklegri til þess að hafa orðið fyrir einelti eða lagt aðra í einelti.

Efnahagsstaða foreldra, samkvæmt mati ungmenna, hafði mikil áhrif á tengsl á öllum sviðum. Öll ungmenni sem sögðust búa við mjög slæman fjárhag höfðu einhver slök tengsl og þriðjungur til helmingur þeirra hafði slök tengsl á öllum sviðum. Þessar tölur ber þó að túlka með fyrirvara þar sem mjög fá ungmenni eru að baki þeim. Engu að síður draga niðurstöðurnar fram mikilvægan ójöfnuð til heilsu og vellíðunar meðal barna og ungmenna sem gefa þarf nánari gaum. Einnig sýndu niðurstöður að börn og ungmenni sem skilgreindu kyn sitt sem annað en strákur eða stelpa voru mun verr stödd hvað félagstengsl varðar en þessi hópur, þótt fámennur væri, var mun líklegri til að eiga erfitt samband við bæði foreldra, vini og skóla.

Eftir því sem félagstengsl ungmenna voru slök á fleiri sviðum, þeim mun neikvæðari áhrif hafði það á heilsu þeirra og líðan. En þótt ungmenni hefðu slök tengsl á tveimur sviðum (t.d. við skóla og vini) rétti það hlut þeirra nokkuð á flestum mælingum ef tengslin voru að minnsta kosti góð á einu sviði og þar skiptu tengslin við foreldra langmestu máli. Börn og ungmenni sem höfðu öll tengsl slök voru langlíklegust til að vera einmana, hafa sállíkamleg einkenni, lenda í slagsmálum, leggja í einelti, vera lögð í einelti, drekka áfengi og reykja.

Börn og unglingar sem höfðu slök vinatengsl voru næstum því þrefalt líklegri til að vera oft einmana en þau sem voru í mjög góðum vinatengslum.

mbl.is/Hari

Íslenskum börnum og unglingum líkar almennt vel í skólanum. Það kemur skýrt fram í alþjóðlegum samanburði, en niðurstöður HBSC-rannsóknarinnar frá 2014 sýndu að íslenskum nemendum líkar betur í skólanum en jafnöldrum þeirra í öðrum löndum og munurinn varð enn meiri eftir því sem leið á skólagönguna.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hér á landi árið 2018 var lítill munur á hlutfalli nemenda sem líkar vel í skólanum eftir aldri, en 91% nemenda í 6. bekk svöruðu því játandi og 87% nemenda í 10. bekk. Eins var lítill munur eftir kyni, en 88% drengja þvert á aldursskeið líkar vel í skólanum á móti 90% stúlkna.

Þegar nemendur voru spurðir hvort þeim fyndist kennurunum vera annt um þá sem einstaklinga mátti hins vegar sjá talsverðan mun eftir aldri, þar sem mun fleiri nemendur í 6. bekk svöruðu þessu játandi (80%) en í 10. bekk (65%). Það sama á við um traust til kennara. Í 6. bekk sögðust 85% nemenda treysta kennurum sínum mjög vel en 64% í 10. bekk. Ekki var mikill munur á milli kynja hvað ofangreint varðar að 6. bekk undanskildum. Í þeim aldursflokki voru færri drengir en stúlkur sem fannst kennurunum vera annt um sig (78% á móti 84%) eða taka þeim eins og þeir eru (87% á móti 94%). Í öllum tilfellum átti þó langsamlegur meirihluti barna og unglinga í góðu og gefandi sambandi við kennara sína samkvæmt rannsókn Ársæls.

AFP

Samskipti við foreldra skipta höfuðmáli á nær öllum sviðum í lífi unglinga og hafa gríðarmikil áhrif á heilsu og vellíðan á þessu aldursskeiði. Rannsóknir sýna að ef foreldrar setja skýrar reglur og hafa miklar væntingar til unglinganna í bland við hlýju, virðingu og opin samskipti leiðir það til meiri áhuga og árangurs í námi en einnig til minni hættu á depurð, kvíða og afbrotahegðun. Góð samskipti hjálpa unglingum að þroska eigið sjálf, móta líf sitt og læra hvernig best sé að eiga í samskiptum við annað fólk.

Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt Pekel, Syvertsen og Scales hafa slík samskipti fimm einkenni:

1. Sýna kærleika: Unglingar þurfa að finna fyrir því með skýrum hætti að foreldrunum sé annt um þá og óski þeim alls hins besta. Foreldrar þurfa einnig að hafa athyglina í lagi þegar þeir eru í samskiptum við unglingana og vera tilbúnir til þess að eyða tíma og orku í að gera hluti fyrir þá og með þeim. Það er líka mikilvægt að gefa sér tíma til að skilja það hvaða manneskju unglingurinn hefur að geyma og hvað skiptir hann máli. Að sjálfsögðu skiptir það höfuðmáli að foreldrar séu áreiðanlegir og traustsins verðir.

2. Glæða þroska: Foreldrar ættu ekki að veigra sér við að gera kröfur til unglinga. Gott líf krefst þess að einstaklingurinn sé sífellt að vaxa, þroskast og verða betri. Á unglingsárunum gegna foreldrar lykilhlutverki í því að hvetja unglingana áfram til þess að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Foreldrar þurfa að hjálpa unglingum að sjá framtíðarmöguleika sína, því framtíðin er oft í þeirra augum flókin og full af hindrunum. Í þessu efni, eins og flestum öðrum, er nauðsynlegt að taka tillit til hugmynda unglinganna og hæfni þeirra, um leið og foreldrar reyna að styrkja hvort tveggja. Til að glæða þroska er einnig mikilvægt að unglingar séu gerðir ábyrgir fyrir því að fara eftir reglum og virða mörk.

3. Veita stuðning: Foreldrar þurfa að vera duglegir við að hrósa fyrir viðleitni og árangur. Oft þurfa unglingar á aðstoð og endurgjöf foreldra sinna að halda til þess að ljúka verkefnum og ná markmiðum sínum. Foreldrar verða líka að vera tilbúnir til að taka upp hanskann fyrir unglingana þegar það á við, til dæmis ef aðrir fullorðnir eru ekki að veita nægilegan stuðning. Stuðningurinn felst þó ekki einvörðungu í þessu, heldur verða foreldrar einnig að gera sér grein fyrir mikilvægi sínu sem fyrirmyndir.

4. Deila ákvarðanavaldi: Það skiptir miklu máli að hlustað sé á unglinga og að þeir fái að taka þátt í ákvarðanatöku. Foreldrar eiga að taka unglinga alvarlega og koma fram við þá af sanngirni. Þeir verða að skilja og aðlaga sig að þörfum þeirra, áhuga og hæfni.

5. Auka möguleika: Nauðsynlegt er að sjóndeildarhringur unglinga verði sífellt víðari og þeim sé veittur aðgangur að nýjum tækifærum. Foreldrar gegna lykilhlutverki í því að kynna unglingum nýjar upplifanir, hugmyndir og staði. Þeir þurfa einnig að hjálpa þeim að yfirvinna nýjar hindranir. Sé þessum aðferðum beitt, ættu þær að kenna unglingum að taka ábyrgð, stjórna tilfinningum sínum, sýna náminu áhuga, ljúka verkefnum og láta sig varða velferð annarra. Allt eru þetta þættir sem skipta máli fyrir velfarnað þeirra í framtíðinni (Pekel o.fl., 2015).

mbl.is/Hari

Í skýrslunni segir að gögnin bendi ótvírætt til mikilvægis vinatengsla fyrir vellíðan unglinga, þótt þau hafi yfirleitt ekki vegið jafn þungt og tengslin við foreldra eða skóla.

„Sterkustu áhrif vinatengsla mátti sjá þegar kom að einelti, en það að eiga góð tengsl við vini dró mjög bæði úr líkum þess að verða fyrir og að leggja aðra í einelti. Það er því mikilvægt að stigin séu skref til þess að efla jákvæð félagstengsl og vináttufærni barna og ungmenna.

Í skólum og hvers konar æskulýðs- og íþróttastarfi gefast margvísleg tækifæri til að þroska vináttu og tengsl á milli barna.

Mikilvægt er að vinna á markvissan hátt að því að efla félags- og tilfinningafærni barna og ungmenna í skólum með gagnreyndum aðferðum og að nemendum gefist næg tækifæri til samvinnu og samræðna.

Góð samskipti og vináttufærni þarf að æfa rétt eins og aðra færni. Sveitarfélög þurfa að gæta þess að bjóða upp á rými og tíma fyrir börn og unglinga til þess að kynnast og eiga í samskiptum á fjölbreyttum vettvangi. Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að íþróttastarf höfði til meirihluta barna á Íslandi hentar það ekki öllum og mikilvægt er að sem flest ungmenni geti fundið sér uppbyggileg áhugamál og tómstundir í nærumhverfi án tillits til efnahags.

Til þess að styðja við jákvæð félagstengsl á milli ungmenna þarf að skapa umhverfi sem er öruggt, uppbyggilegt og að einhverju leyti undir umsjón fullorðinna (Inchley o.fl., 2016). Unglingar nota gjarnan netið til samskipta og því er mikilvægt að kenna þeim hvernig það er gert á heilbrigðan og ábyrgan hátt. Þannig má vinna gegn netvandamálum sem tengjast til dæmis ofnotkun og neteinelti.

Einnig þarf stöðugt að minna unglinga á neikvæðar afleiðingar sem óábyrg netnotkun getur haft í för með sér. Þeir þurfa að vita að það sem við setjum á netið verður þar um ókomna tíð.

Ljósmynd / Getty Images

Sömuleiðis er gott að efla gagnrýna hugsun á meðal ungmenna gagnvart þeim skilaboðum sem finnast í netheimum. Upplýsingar sem ganga manna á milli á samfélagsmiðlum eru ekki alltaf í takti við raunveruleikann og sú mynd sem fólk býr til af eigin lífi er yfirleitt mjög einfölduð og fínpússuð (Inchley o.fl., 2016). Mikilvægt er að kenna börnum og unglingum að varast að bera saman sína innri líðan við yfirborðið í lífi annarra. Ekki er síður mikilvægt að fullorðna fólkið í lífum ungmenna ― foreldrar, kennarar, þjálfarar og aðrar fyrirmyndir ― gangi á undan með góðu fordæmi hvað umgengni við samfélagsmiðla varðar,“ segir í lokaorðum skýrslu Ársæls Arnarssonar.

Niðurstöður skýrslunnar verða kynntar á fjarfundi í samstarfi við Náum áttum á þriðjudaginn  kl. 15:00 -16:00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka