Veirupróf á innan við 27 þúsund krónur

Verið er að vinna að kostnaðargreiningu vegna verkefnisins.
Verið er að vinna að kostnaðargreiningu vegna verkefnisins.

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, reiknar með því að kostnaðurinn við hvert veirupróf í Flugstöð Leifs Eiríkssonar gæti orðið undir 27 þúsund krónum.

Hann tekur þátt í að vinna kostnaðargreiningu á verkefninu og á hópurinn að skila af sér niðurstöðu til forstjóra Landspítalans á mánudaginn. Karl vill þó ekki staðfesta neina tölu fyrr en kostnaðargreiningin er tilbúin en greint var fyrst frá málinu í fréttum Bylgjunnar

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans. mbl.is/Árni Sæberg

Í skipunarbréfi Hildar Helgadóttur, sem á að leiða vinnu við sýnatöku hjá ferðamönnum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, kom fram að hvert sýni skuli kosta í mesta lagi 50 þúsund krónur.

Spurður út í þennan mismun segist Karl ekki vita hvaðan talan 50 þúsund kemur en mögulega tengist hún einnig kostnaði við aðstöðuna. Hann bendir á að rannsóknin á veiruprófi sé samkvæmt gjaldskrá 27 þúsund krónur en að hún gæti orðið mun ódýrari ef mörg sýni verði tekin samtímis með afkastameiri tækjabúnaði.

Verið er að panta tækjaróbót erlendis frá til að aðstoða við sýnatökuna og með honum myndu nást um 1.200 sýni á sólarhring. Karl segir handavinnuna mikla við að setja sýni í tilraunaglös og því myndi slíkur róbót koma að góðum notum. Öryggið sé einnig meira því engin hætta verður á ruglingi við vinnslu sýnanna. Ef þörf er á meiri afköstum við greiningu sýna er hægt að panta enn afkastameiri róbót sem getur náð um 4.000 sýnum á sólarhring. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert