Frumvarp ríkisstjórnarinnar, um að heimila ferðaþjónustufyrirtækjum að endurgreiða pakkaferðir með inneignarnótum í stað endurgreiðslu í peningum, er ekki „príma frumvarp“ fyrir neytendur. Þetta sagði Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í Víglínunni á Stöð 2 í dag.
Það væri lagt fram vegna slæmrar stöðu ferðaþjónustufyrirtækja sem mörg hver hafa tekið við greiðslum frá viðskiptavinum og nýtt þær til að greiða flugfélögum, hótelum og öðrum fyrirtækjum, en hefðu síðan ekki fengið endurgreiðslu frá þeim.
Frumvarpið hefur mætt töluverðri andstöðu en meðal þeirra sem leggjast gegn því eru Neytendasamtökin, ASÍ, Arion banki og Íslandsbanki. Segist Þórdís skilja að ekki sé mikil „stemning“ fyrir frumvarpinu og mátti heyra á henni að ekki væri víst að það fengist samþykkt á þingi.
Réttur farþega til endurgreiðslu byggist á tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2018. Þórdís sagði ljóst að forsendur tilskipunarinnar væru brostnar enda hefði enginn gert sér í hugarlund að ferðaþjónusta gæti stöðvast á einu bretti líkt og nú er raunin. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur engu að síður gefið út að neytendur eigi skýlausan rétt á endurgreiðslu á bæði flugferðum og pakkaferðum.