Farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg hefur verið lokað. Síðustu gestir hússins voru útskrifaðir á miðvikudag og að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, umsjónarmanns hússins, er ekki þörf á að halda því opnu lengur. „Eins og við sjáum á tölunum er COVID á undanhaldi alla vega í bili,“ segir Gylfi en bætir við að menn séu reiðubúnir að opna á ný ef þess þarf.
Íslenska ríkið tók Íslandshótel á Rauðarárstíg að leigu í lok febrúar, en að sögn Gylfa var húsið fyrstu tvær til þrjár vikurnar nýtt sem sóttvarnahús, þ.e. þangað fór fólk, gjarnan ferðamenn sem höfðu ekki í önnur hús að venda, í sóttkví. Eftir það hafi húsinu verið breytt í farsóttarhús þar sem fólk, sem er með veiruna, dvelur.
Alls hafa um 50 manns dvalið í farsóttarhúsinu, mestmegnis Íslendingar, og hafa um 40 sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins komið að rekstri þess. Gylfi segir reksturinn hafa gengið ljómandi vel og betur en fólk hafi þorað að vona. „Það besta er að enginn sem starfaði hér veiktist,“ segir Gylfi.
Aðspurður segist Gylfi ekki hafa sérstakar áhyggjur af að opnun landamæra landsins, sem er í undirbúningi, verði til þess að opna þurfi húsið á ný. „Þeir sem koma til landsins hafa eflaust gert einhver plön um gistingu.“
Starfsmenn hússins gerðu sér glaðan dag á föstudag, þökkuðu starfsfólki fyrir vel unnin störf og heiðraði söngvarinn Bjarni Ara starfsfólk með söng.