„Við höfum ekki átt annarra kosta völ en að fallast á þessar hækkanir. Spurningin sem við höfum staðið frammi fyrir er hvort við viljum setja félagið í þrot eða borga það sem þeir fara fram á. Fyrir mér er þetta ekkert annað en ofbeldi.“
Þetta segir Þórhallur Viðarsson, einn eigenda skemmtistaðarins B5 í Bankastræti, um viðskipti sín við Eik fasteignafélag. Eigendur B5 eru ósáttir við stöðugar hækkanir á leiguverði af hálfu fasteignafélagsins síðustu misseri. Þær hafi verið knúnar fram í skjóli þess að yrði ekki á þær fallist yrði skemmtistaðurinn aðeins opinn til kl. eitt á nóttunni. Slíkt myndi ganga af rekstrinum dauðum, segir Þórhallur.
Steininn tók úr þegar fasteignafélagið vildi ekki endurskoða áður samþykktar hækkanir þegar samkomubann var sett á og staðnum var lokað með tilheyrandi tekjufalli, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.