Lokuðu sjö stöðum í miðbænum

Lögreglan lokaði í síðustu viku sjö skemmtistöðum og krám í …
Lögreglan lokaði í síðustu viku sjö skemmtistöðum og krám í miðbæ Reykjavíkur. Í glufu sem myndaðist við reglur samdar í flýti höfðu þessir staðir verið opnir frá 4. maí og viðskipti verið allnokkur. Vandinn var sá að ölið flæddi hressilega, en minna var um hluti matarkyns. Þetta voru ekki veitingahús. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir að samkomubann fór úr 20 í 50 þann 4. maí fór að færast líf í miðbæinn. Gestir veitingastaða kneyfðu ölið til ellefu hvert kvöld og það var víðast húsfyllir um helgar. Það voru þó aðeins þeir sem höfðu veitingaleyfi fyrir mat sem máttu veita vín, þannig að veitingaleyfislausar krár og barir kvörtuðu sáran undan því að fá ekki að veita sömu þjónustu og verið var að veita annars staðar.

Harmatölur vertanna rötuðu ekki aðeins í fjölmiðla, heldur einnig á borð lögreglu. Eftir eina djammhelgi inni á börum og krám með veitingaleyfi 9.-10. maí tók lögreglan við sér og fór að grípa til aðgerða til að jafna metin: Hún lokaði sjö þannig stöðum í miðbænum á grundvelli þess að þeir væru skráðir sem krár eða skemmtistaðir, en ekki veitingahús.

Til útskýringar á flokkun leyfanna eru allir sem veita vín eða mat veitingastaðir. Grunnmerkingin er þá veitingastaður. Síðan eru undirflokkar: veitingastaður/veitingahús; veitingastaður/krá; veitingastaður/skemmtistaður. Aðeins veitingastaðir sem voru líka veitingahús fengu að hafa áfram opið eftir lokanirnar og inni á slíkum stað verður kerfið að vera eins og þekkist á hefðbundnu veitingahúsi: Sest við borð, pantað, fengið neytt.

Svindl!

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að þeir sem ekki máttu vera með opið hafi leitað til lögreglu og bent á óréttlætið. Í kjölfarið hafi lögreglan tekið hringinn, gert mönnum grein fyrir að væru þeir ekki með eiginleg veitingahús þyrftu þeir að loka fram til 25. maí.

Prikið, sem hélt góðar fimmtíu manna veislur helgina 9.-10., slíkar að plötusnúðar þeyttu skífum, lokaði fyrir helgi. Þeim var gert ljóst að á grundvelli þess að þeir væru ekki veitingahús heldur bara skemmtistaður með veitingaleyfi, þyrftu þeir að loka. Þeir tóku því þó vel og fóru í langþráðar framkvæmdir, sagði rekstrarstjórinn við mbl.is.

Prikið lokaði í smá og fór í framkvæmdir, m.a. við …
Prikið lokaði í smá og fór í framkvæmdir, m.a. við að koma fyrir leikjasal á efri hæðinni í portinu. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Sekt, ef kúnnarnir voru of margir

Blessunarlega fyrir rekstraraðila sitja þeir frá og með 25. maí, mánudeginum í næstu viku, allir við sama borð. Þá verður opið til kl. 23 á hverju kvöldi, sem mun í blíðviðri um helgar að líkindum skila sér í snemmtækum næturlífsráðstöfunum af hálfu borgarbúa. Byrjar snemma, búið snemma.

Að sögn Jóhanns Karls hefur þetta, fyrir utan nefndar áréttingar (lokanir), gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig í miðbænum. Fyrstu vikuna eftir fyrstu afléttingu 4. maí voru nokkrir barir sektaðir fyrir of marga viðskiptavini inni í einu, en fljótlega hafi menn komist upp á lagið með réttan fjölda.

Fréttin hefur verið uppfærð. Röntgen á Hverfisgötu var ranglega sagður lokaður en sannleikurinn er sá að hann er opinn, enda skráður veitingastaður/veitingahús. Boðið er upp á grillaðar samlokur og fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert