Fasteignafélagið Salteyri ehf. hefur gert eigendum Kaffivagnsins á Granda tilboð í húsnæði veitingastaðarins, sem eigendur íhuga nú að ganga að.
„Það barst álitlegt tilboð í eignina sem við erum að meta,“ segir Jóhann Þórarinsson, forstjóri FoodCo, sem á og rekur Kaffivagninn, í Morgunblaðinu í dag. „Það er ekki búið að selja húsið.“
FoodCo keypti Kaffivagninn árið 2017. Á vefsíðu staðarins er hann sagður elsti samfleytt rekni veitingastaður á Íslandi en hann hefur verið starfandi frá 1935, þó ekki á sama stað alla tíð. Eigendaskipti hafa verið nokkur á öldinni en eigendurnir fyrir FoodCo höfðu átt hann frá 2013. Faxaflóahafnir, sem eiga forkaupsrétt á mörgum eignum á hafnarsvæðinu, féllu á fundi sínum fyrir helgi frá réttinum á húsnæði Kaffivagnsins.